145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

búvörusamningur og mjólkurkvótakerfi.

[14:04]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ekki er það nú að heyra á milliliðunum sem hafa verið að tjá sig um þessi mál að þeir telji þessa samninga fyrir sig gerða. Það er einmitt kvartað yfir því að bændur, stéttin sem framleiðir fyrir okkur matinn, fái of mikið í sinn hlut. Svoleiðis að þessi túlkun hv. þingmanns stenst ekki skoðun frekar en aðrar athugasemdir hans hér.

Ég get ekki annað en ítrekað undrun mína á því að hv. þingmaður skuli telja að ein stétt, bændur, eigi ekki að njóta sömu réttinda og aðrar stéttir í samfélaginu. Þegar samið er við aðrar stéttir, er þá ekki samið með þeim hætti að menn geri ráð fyrir því að kostnaðurinn við það haldi áfram að aukast frekar en hitt? Hér er verið að setja verulegar hömlur á kostnaðaraukninguna. Svoleiðis að það má kannski frekar, virðulegur forseti, segja að bændur hafi, meðal annars vegna viðhorfa eins og þessi hv. þingmaður lýsir, ekki notið sömu réttinda og aðrar stéttir. En með nýjum búvörusamningum er þó verið að leitast við að bæta starfsaðstöðu þeirra og gera þeim kleift að sækja fram og það gagnast samfélaginu öllu.