145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[14:14]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég mun greiða atkvæði gegn því að Ísland fullgildi samþykktir og samninginn um aðild að þessum banka. Þeim spurningum sem hafa vaknað í umræðum á þingi hefur ekki verið fyllilega svarað og ég tek undir að það er ýmislegt einkennilegt við þetta. Það er ekki ljóst hvaða ávinning það hefur fyrir Íslendinga að gerast aðilar að samfélagsbanka hinum megin á hnettinum. Ég velti fyrir mér hvort ríkisstjórnin telji að hún eigi ekki nógu mikið af hlutabréfum í bönkum nú þegar og hvort á það sé bætandi yfirleitt. Þetta eru 2,3 milljarðar í samfélagsbanka á sama tíma og ekki virðist vera stemning fyrir því að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka vegna þess að það muni ekki skila arði. Það er ljóst að þessi banki mun ekki skila arði, hann mun ekki skila árangri fyrir íslenskt atvinnulíf eða íslensk fyrirtæki í útrás. Okkar vörur og okkar þekking mun seljast ef hún er betri og ef hún er á betra verði en önnur þekking, (Forseti hringir.) það mun ekki fara eftir því hvort við eigum 0,3% í þessum banka. Ég segi nei við þessu.