145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[14:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða að Ísland gerist aðili að þessum banka sem er Innviðafjárfestingabanki Asíu, opni þar um leið tækifæri eða möguleika fyrir íslensk fyrirtæki til að taka þátt í slíkri starfsemi og uppbyggingu. Innviðir eru býsna stórt hugtak þannig að þeir geta verið af mörgu tagi.

Ég kem aðallega hér upp til að hafa það alveg á hreinu að ekki er gert ráð fyrir að þessir fjármunir komi af þróunarfé, ég mun ekki samþykkja slíkt. Það er nýtt fé sem kemur inn í þetta og reyndar er ekki búið að kveða upp úr um það hvort þetta fé sé tækt sem fjármagn í þróunarsamvinnu, en hvort sem er þá er þetta nýtt fé að mínu mati sem þarna þarf að koma inn, enda erum við ekkert allt of vel sett með peninga í þróunarmál eins og staðan er í dag, við þurfum að auka verulega í.