145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:37]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna en ítreka það sem ég hef áður sagt, að ég tel ekkert í umræddri ákvörðun Bandaríkjanna einni og sér, þ.e. um að bæta aðstöðu í flugskýli, hækka loft og styrkja gólf og fleira, benda til aukinna hernaðarlegra umsvifa hér á landi. Ég tek líka undir með utanríkisráðherra að við getum ekki tengt þá ákvörðun við neitt annað en eðlilegt og fyrirsjáanlegt viðhald og aðgerðir á svæðinu, auk þess sem komið hefur fram í umræðunni að þessi aðgerð og þessar athafnir Bandaríkjanna á svæðinu eru í fullu samræmi bæði við varnarsamninginn frá 1951 og viðaukann og viljayfirlýsinguna hjá ríkjunum báðum árið 2006 þegar herinn fór, sem breytti þó engu um þessa grunnstoð í íslenskum utanríkismálum og íslenskum varnarmálum, við eigum enn þá í öflugu og góðu varnarsamstarfi við Bandaríkin. Mér finnst stundum á umræðunni eins og það hafi horfið árið 2006, en það var auðvitað ekki þannig.

Þetta hefur ítrekað komið fram og kom fram á sérstökum fundi hv. utanríkismálanefndar sem við áttum með ráðherra og helstu ráðgjöfum okkar og sérfræðingum okkar á þessu sviði þar sem við áttum góða umræðu um þessi mál.

Það breytir þó engu um það að ég tek alveg undir það sem allir hafa sagt hér að það er sannarlega ástæða til að ræða stöðuna í öryggis- og varnarmálum, kannski vegna flests annars en umrædds flugskýlis, og þá staðreynd að ýmislegt bendir til þess, því miður, að efla þurfi þá vakt á heimsvísu. Ógnir við öryggi okkar eru einfaldlega fleiri. Þær eru einfaldlega flóknari í dag en þær voru og þær eru bæði fleiri og flóknari en við vildum að þær væru. Ísland er ekki undanskilið í því efni.

Þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir og þekkjum krefjast þess að mínu mati að við stöndum áfram dyggan vörð um samstarf við NATO-ríkin, að við stöndum áfram dyggan vörð um veru okkar í NATO og skynjum og vitum hversu mikilvægt það samstarf er fyrir okkur, og að við stöndum (Forseti hringir.) dyggan vörð og tryggjum áframhaldandi traustar stoðir undir það varnarsamstarf sem við höfum átt (Forseti hringir.) við Bandaríkin. Það kemur svo sem engum á óvart, virðulegur forseti, að það sé afstaða mín til málsins, en ég tel þetta tvær meginstoðirnar í utanríkisstefnu Íslands.