145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef ekki lesið mikið Stars and Stripes, ekki heldur Defence News, og enginn erlendur blaðamaður hefur hringt í mig til að spyrja mig álits á þessu. Hitt liggur alveg fyrir, að það þarf engar frekari yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstjórn um þetta mál. Mér fannst hæstv. utanríkisráðherra gefa mjög skýlausa yfirlýsingu þegar hann sagði áðan að það lægi algjörlega skýrt fyrir að hann hefði hvorki átt í neinum viðræðum um að herinn kæmi hingað aftur né hefði þess verið óskað af neinum sem hann hefur átt viðræður við. Þá finnst mér að málið liggi algjörlega skýrt fyrir.

Hitt er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í kjarnyrtri ræðu áðan, það hafa orðið breytingar á alþjóðlegu umhverfi. Fyrir nokkrum árum töldu menn einfaldlega að það væri að bresta á með ævarandi friði millum Rússlands og Bandaríkjanna. Við sáum það árið 2008 þegar Medvedev forseti talaði beinlínis með þeim hætti að menn áttu bókstaflega von á því að það yrði sérstakt samstarf á millum NATO og Rússlands á næstu árum. Allt hefur þetta breyst. Við sjáum að umsvifin hafa líka breyst á norðurslóðum. Það er hárrétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, við þurfum að gera það sem við getum til að koma í veg fyrir að norðurslóðir sem hafa verið lágspennusvæði breytist úr því og verði háspennusvæði. En við sjáum auðvitað að ýmsar þjóðir, Norðmenn, Danir og ekki síst Rússar, eru að byggja herstöðvar sem fikra sig æ lengra norður. Við þurfum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar.

Það breytir hins vegar ekki því að við höfum tekið þann kost að vera aðilar að stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins til þess að við yrðum varin ef til hins óhugsanlega kæmi. Það að vera í slíku samstarfi felur í sér réttindi en líka (Forseti hringir.) skyldur. Þær breytingar sem við erum að ræða hér sýnast mér rúmast næsta auðveldlega innan þess samkomulags sem gert var 2006.

Mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Stendur til að breyta með einhverjum hætti hinu pólitíska samkomulagi, (Forseti hringir.) m.a. til þess að það taki mið af ákveðnum breytingum sem hafa orðið hér á landi?