145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu sem og svör hæstv. ráðherra. Í henni kom fram ansi skýr greinarmunur á afstöðu flokka, bæði til alvarleika þessa máls sem og viðhorfsins til hernaðarumsvifa og viðveru hers á Íslandi. Mér finnst sérstakt að tala annars vegar um breytt landslag í heiminum frá árinu 2006 en vilja hins vegar ræða þetta flugskýlamál mjög þröngt eins og að þetta tengist ekki. Líkt og ég kom að í ræðu minni áðan held ég að þetta tengist alveg beint. Þetta er partur af breyttri heimsmynd og þetta er birtingarmyndin á Íslandi.

Mér finnst miður að heyra að hæstv. ráðherra vilji gefa í þegar kemur að loftrýmisgæslu vegna þess að ég tel að það sé í rauninni ekkert annað en æfingabúðir fyrir erlenda heri, við veitum þeim sem sagt þann aðgang hér á landi. Hins vegar tel ég alveg rétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, að Bandaríkin sjái eftir því að hafa farið héðan með allt sitt herlið og vilji koma hingað aftur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, sem sagði að engar viðræður hefðu farið fram eða að Bandaríkin hefðu ekki beðið um að fá að koma hingað aftur, hvort það sé ekki alveg ljóst að ef að einhvers konar beiðni um þetta kemur muni hæstv. ráðherra gera grein fyrir því á Alþingi. Að mínu mati er lykilatriði að fram fari opin og upplýst umræða um þessi mál, hún fari ekki bara fram í hv. utanríkismálanefnd þar sem menn eru bundnir trúnaði (Forseti hringir.) vegna þess að þetta er mál af því tagi að íslenskur almenningur á rétt á að vita hvað er að gerast í því og hvaða afstöðu stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa til þess.