145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

hæfisskilyrði leiðsögumanna.

275. mál
[15:36]
Horfa

Flm. (Róbert Marshall) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um hæfisskilyrði leiðsögumanna.

Flutningsmenn með mér á þessu máli eru hv. þingmenn Katrín Júlíusdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Ásta Guðrún Helgadóttir. Saman myndum við öll minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Í þessari tillögu til þingsályktunar felst að Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að undirbúa reglur um hæfisskilyrði leiðsögumanna í ferðum um hálendi Íslands og í þjóðgörðum og friðlöndum á Íslandi. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir reglunum með skýrslu í upphafi 146. löggjafarþings haustið 2017.

Í greinargerð sem fylgir með þessari ályktun segir:

Með tillögu þessari til þingsályktunar er lagt til að undirbúnar verði reglur um hæfi leiðsögumanna í ferðum um hálendi Íslands, þjóðgarða og friðlönd með það fyrir augum að vernda náttúruna.

Störf leiðsögumanna eru hvorki löggilt né er starfsheitið lögverndað. Þó eru sett skilyrði um menntun til þess að öðlast starfsheitið leiðsögumaður. Leiðsögumenn eru sérhæfðir þjónustuaðilar við ferðamenn og krefst starfið meðal annars þess að leiðsögumenn hafi víðtæka þekkingu á íslensku þjóðlífi, sögu og menningu og síðast en ekki síst náttúru Íslands.

Árlega fara þúsundir ferðamanna um hálendi, þjóðgarða og friðlönd Íslands, með og án leiðsagnar. Náttúra þessara svæða er einstök og þess eðlis að vistgerðin er viðkvæm og rask ferðamanna, utanvegaakstur og annar umgangur getur farið illa með hana. Fjöldi ferðamanna fer um náttúru Íslands í skipulögðum hópferðum en þó einnig á eigin vegum, ýmist á bifreiðum, hestum, hjólum eða bifhjólum eða fótgangandi. Ljóst er að mesta hættan á skaða er þar sem saman fara stórir hópar sem njóta leiðsagnar leiðsögumanna með litla eða takmarkaða þekkingu á sérstakri náttúru landsins.

Til að mögulegt sé að takmarka eða fyrirbyggja skaða á náttúru hálendisins, þjóðgarðanna og friðlandanna er mikilvægt að þeir leiðsögumenn sem bera ábyrgð á skipulögðum hópferðum á hálendinu séu hæfir til að ganga um náttúruna með þeim hætti sem ætlast er til samkvæmt lögum og almennt viðurkenndri venju hér á landi. Leiðsögumenn þurfa að vera hæfir til þess að leiða fólk um náttúru landsins með þeim hætti að ekki valdi spjöllum og þannig að ferðamenn þekki umgengnisreglurnar og mikilvægi þess að náttúran verði fyrir sem minnstri röskun, svo sem vegna utanvegaaksturs, steinasöfnunar og niðurbrots lífræns úrgangs.

Flutningsmenn telja rétt að Umhverfisstofnun í samstarfi við Náttúrufræðistofnun, Landgræðsluna og Skógrækt ríkisins undirbúi námskeið fyrir leiðsögumenn ferðamanna um hálendi, þjóðgarða og friðlönd og móti jafnframt tillögur að reglum um hæfisskilyrði þeirra sem sinna leiðsögn um dýrmætustu og viðkvæmustu svæðin. Gera má ráð fyrir að leiðsögumenn sem þegar hafa lokið námi frá leiðsöguskóla hér á landi hafi nægilega þekkingu á efni slíks námskeiðs, en t.d. erlendir leiðsögumenn yrðu með slíkum skilyrðum skyldaðir til að afla sér tilskilinnar þekkingar áður en þeir veita leiðsögn um viðkvæmustu náttúrusvæði landsins. Með auknum fjölda ferðamanna má búast við fjölgun leiðsögumanna sem hafa ef til vill ekki mikla þekkingu á íslenskri náttúru eða reglum um umgengni og vernd sem líklegt er að menntaðir leiðsögumenn hafi. Ýmis lönd hafa gripið til þess ráðs að skylda ferðamenn til þess að ráða innlenda leiðsögumenn á ferðum sínum en hér er ekki gengið svo langt. Æskilegt er að sem flestir leiðsögumenn hafi lokið námi í leiðsögn við íslenskar aðstæður en hér er gert að tillögu að útbúið verði námskeið fyrir þá sem hyggjast sinna leiðsögn hér svo að tryggt sé að náttúran verði ekki fyrir spjöllum.

Umhverfis- og auðlindaráðherra er með þingsályktun þessari falið að beina því til þeirra stofnana sem nefndar eru hér að framan, í samstarfi við samtök ferðaþjónustunnar og sveitarfélögin, ásamt innlendum ferðafélögum á borð við Útivist og Ferðafélag Íslands sem ekki eru rekin með hagnaðarsjónarmiði, að gera tillögur að reglum er varða hæfisskilyrði leiðsögumanna í ferðum um viðkvæm náttúrusvæði Íslands.

Það er svo sem ekki miklu við greinargerðina sem fylgir þessari tillögu að bæta, nema kannski því að þessi tillaga er af sama stofni og sama meiði og tillaga sem ég fékk að mæla hér fyrir í síðustu viku og varðaði uppbyggingu á ferðamannastöðum. Hún snýr að því að færa ábyrgðina til, setja ábyrgðina til þeirra sem eru ýmist búsettir víðs vegar um landið í nálægð ferðamannastaða og til leiðsögumanna sem fara með stóra hópa um landið. Það er vitað að það eru hópar sem ferðast um mjög viðkvæm svæði á landinu í leiðsögn erlendra leiðsögumanna sem hafa ef til vill mjög takmarkaða þekkingu á því hvað íslensk náttúra getur þolað og hvað telst til varanlegra skemmda á henni og hefur áhrif til lengri tíma. Þetta er auðvitað fyrst og síðast hugsað sem tillaga til að tryggja að ákveðin lágmarksþekking sé til staðar hjá þeim sem sjá um leiðsögn á þeim svæðum sem um ræðir.

Þetta er líka tillaga sem miðar að því sem hefur verið mjög mikið í umræðunni upp á síðkastið, þ.e. öryggi ferðamanna. Með þessu yrði gengið úr skugga um að þeir leiðsögumenn að minnsta kosti sem eru að leiðsegja á Íslandi gerðu ferðamönnum, sem nytu leiðsagnar þeirra, grein fyrir því að íslensk náttúra, þó að hún sé stórbrotin og falleg, er líka oft mjög hættuleg. Það að setja sig nálægt eða upp við mikið náttúruafl getur leitt til þess að slys verða og jafnvel banaslys eins og dæmin sanna.

Ég held að þetta sé mjög góð aðferð til að tryggja að fólk sé almennt í stakk búið til að sinna þessari leiðsögn til að auka öryggi ferðamanna og til að hugsa til lengri tíma um það hvernig við getum tryggt sem best að náttúra Íslands verði ekki fyrir miklum skaða af völdum þess fjölda ferðamanna sem sækir landið heim. Eins og vitað er eru mjög mörg lönd sem hafa ekki gáð að sér í þessum efnum og hafa lent í því að viðkvæmir ferðamannastaðir hafa orðið fyrri miklum skemmdum vegna þess að of seint var gripið inn í atburðarás. Nýlega var það til dæmis í fréttum að stjórnvöld á Ítalíu hafa ákveðið að loka ákveðnum fiskiþorpum vegna mikils ágangs ferðamanna eða að minnsta kosti að takmarka heimsóknir þangað þar til fundið verði út úr því hvernig hægt sé að anna eftirspurninni, taka á móti þessum fjölda gesta án þess að það skemmi eða rýri verulega lífsgæði þeirra sem fyrir eru á svæðinu og skemmi upplifun gestanna líka eins og þekkt er.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þessa tillögu. Hún talar fyrir sig sjálf að mestu leyti og ég óska eftir því að henni verði, eftir þessa umræðu, vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.