145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

lagaskrifstofa Alþingis.

30. mál
[16:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og eftir því sem ég fæ best séð prýðilegasta frumvarp. Ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður hefur sagt, að sjálfsagt er enginn þingmaður á móti þessu, enda er þetta hið prýðilegasta mál.

Mig langar hins vegar að velta upp spurningu til hv. þingmanns um það hvert viðhorf hennar sé til þess að svona ákvæði eigi heima í stjórnarskrá. Ég fæ nefnilega ekki séð í frumvarpinu að það hafi beinlínis bindandi áhrif á lagasetningarferlið í sjálfu sér heldur sé þetta tæki sem þingmenn gætu nýtt sér til aðstoðar, kannski svipað og nefndarritarar eða sú ágæta þjónusta sem er í boði á Alþingi. Ef ákvæðið væri hins vegar í stjórnarskrá væri hægt að gera þetta að bindandi ferli samkvæmt einhverjum formlegum reglum þannig að til þess að lög gengju í gegn á annað borð þyrfti að fara fram einhver athugun á þeim. Ég fæ ekki betur séð en að slíkt ákvæði þyrfti að vera í stjórnarskrá.

Í frumvarpi sem var lagt fram á 141. þingi og var í meginatriðum frumvarp stjórnlagaráðs til stjórnarskrár er í 62. gr. fjallað er um fyrirbæri sem heitir Lögrétta. Ég ætla að lesa það upp, með leyfi forseta:

„Alþingi kýs í Lögréttu fimm menn til fimm ára.

Þingnefnd eða fjórðungur alþingismanna getur óskað eftir áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins. Ekki má afgreiða frumvarpið fyrr en álit Lögréttu liggur fyrir.

Um Lögréttu skal nánar mælt fyrir í lögum.“

Ég fæ ekki betur séð en að þetta séu mjög sambærileg mál. Ég velti fyrir hvert viðhorf hv. þingmanns sé til þess að kannski eigi þetta fyrirbæri heima í stjórnarskrá, óháð því hvort það sé akkúrat þessi klausa eða einhver önnur sambærileg.