145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

lagaskrifstofa Alþingis.

30. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru skemmtilegar umræður, sérstaklega þegar hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson segir að þingið eigi ekki að geta brotið stjórnarskrá. Ég benti á í framsöguræðu minni að lagasetning hér er stundum svo tæp og svo illa unnin að fallið hafa dómar í Hæstarétti í tvígang, í þrígang, í fjórgang, þar sem dómstólar hafa beinlínis þurft að fara á móti Alþingi og löggjafanum og benda löggjafanum á að stjórnarskrá hafi verið brotin vegna lélegrar lagasetningar. Það er það sem við flutningsmenn erum að reyna að forðast og hindra með því að setja á stofn sjálfstæða stofnun sem, eins og segir í 4. gr., „skal gæta jafnræðis við undirbúning mála og aðstoð við alþingismenn“. Í 1. gr. er fjallað um að hér séu ekki lögð fram frumvörp nema lagaskrifstofa sé búin að ganga úr skugga um að viðkomandi frumvörp brjóti ekki stjórnarskrá, þau standist þjóðréttarlegar skuldbindingar, þau séu nákvæm, skýr og auðskiljanleg og þar að auki séu gjaldtökuheimildir skýrar. Allt þetta skiptir svo miklu máli með vísan í dómafordæmi, það hafa t.d. fallið dómar þar sem gjaldtökuheimildir ríkisins hafa alls ekki verið skýrar og ekki verið nógu sterkar til þess að hægt væri að láta þær taka gildi.

Svo við komum aftur að stjórnarskránni þá er það svo, virðulegi forseti, að stjórnarskrá hvers ríkis á að vernda borgarana fyrir ofríki stjórnvalda hverju sinni, sama hvaða ríkisstjórn situr við völd. Skrifstofa eins og lagaskrifstofa Alþingis á ekki að vera bundin í stjórnarskránni því að hún á að vera sjálfstæð stofnun sem fyrirbyggir að sett séu (Forseti hringir.) lög sem stangist á við stjórnarskrána sjálfa og önnur lög.