145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

lagaskrifstofa Alþingis.

30. mál
[16:29]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir að lýsa því yfir að hann styðji þetta mál. Ég fór yfir það að þetta er lagt fram sem frumvarp og auðvitað geta allir þingmenn haft áhrif á hvernig það svo endar í atkvæðagreiðslu og eftir að frumvarpið hefur verið sent út til umsagnar og álitsgjafar eru búnir að gera athugasemdir við frumvarpið tekur það kannski breytingum þannig að við erum að stefna að sama marki.

Varðandi pælingar þingmannsins um það hvort lagaskrifstofa Alþingis þurfi að vera bundin í stjórnarskrá, þá er þrískipting ríkisvaldsins tilgreind nákvæmlega í 2. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Það kom fram í máli þingmannsins að ekki væri neitt um dómstólana í stjórnarskránni en ég vil benda á að V. kafli stjórnarskrárinnar, 59. og 60. og 61. gr., fjallar sérstaklega um dómstólana.

Varðandi 2. gr. stjórnarskrárinnar er þar alveg skýrt að Alþingi og forseti Íslands fara með löggjafarvaldið. Þá hlýtur, og ég veit það, Alþingi sjálft að geta fundið út úr því hvernig því valdi er best fyrir komið. Þess vegna er frumvarpið lagt fram, til að lagaskrifstofa verði stofnuð við þingið svo að lagasetning verði eins og best verður á kosið. Við ræðum líka um umboðsmann Alþingis. Á bls. 4 í greinargerð með frumvarpinu er yfirlitskafli um mikilvægi hans. Hann er stofnun Alþingis. Þar kemur fram að embættið hefur einmitt verið mjög afgerandi og gefið út mörg álit (Forseti hringir.) þar sem beinlínis er bent á meinbugi á lögum þannig að þessi lagaskrifstofa yrði til stuðnings við umboðsmann Alþingis (Forseti hringir.) og verður vonandi til þess að fækka líka málum þar.