145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

lagaskrifstofa Alþingis.

30. mál
[16:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get borið virðingu fyrir því og hef sömu væntingar um að þetta muni spara til lengri tíma. Hins vegar er það líka oft þannig að þegar til eru ferlar sem þarf að eyða peningum í til að spara peninga annars staðar er það ekkert voðalega ljóst fyrir fram hver sparnaðurinn verður og auðvitað deildar meiningar um það á hinu háa Alþingi við afgreiðslu fjárlaga og tengdra mála. Þótt ég sé sammála hv. þingmanni er ég ekki viss um að allir fjármálaráðherrar í framtíðinni, vonandi hæstvirtir, yrðu sammála eða að Alþingi mundi endilega alltaf komast að þeirri niðurstöðu að þetta hefði sparnað í för með sér. Sömuleiðis held ég að erfitt sé að meta það. Ef þessi tillaga nær fram að ganga, sem ég vona innilega að verði tilfellið, er erfitt að meta sparnaðinn því að það er ekki endilega skýrt hvað það hefði kostað að vera með aðeins óvandaðri löggjöf ef ekki hefði verið fyrir þessa lagaskrifstofu. Það er erfitt að meta í tölum hversu mikið yrði sparað og jafnvel þótt menn telji sig þokkalega vissa um að það verði í raun sparnaður til lengri tíma leiðbeinir það ekki fjárlagavaldinu mjög mikið um það hversu miklum peningum sé réttmætt að eyða í þetta. Sömuleiðis er alltaf hætta á því að fjármagn sé notað í pólitískum tilgangi til þess ýmist að efla eitthvað sem aðrir eru á móti eða ganga á getu einhverra stofnana til að sinna hlutverki sínu.

Samt verð ég að taka undir þann ágæta punkt hjá hv. þingmanni að það er auðvitað ríkur munur á því hvort svona skrifstofa, jafnvel þótt það væri sjálfstæð stofnun, metur mál áður en þau verða að lögum eða eftir á. Það er grundvallarmunur þar á. Þess vegna er mjög mikilvægt að þetta komi til í einhverju formi, hvernig svo sem það er nákvæmlega útfært. Þannig að ég get lítið annað en fagnað frumvarpinu og hlakkað til áframhaldandi umræðu.