145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í byrjun kjörtímabilsins fór fram atkvæðagreiðsla um tillögu þess efnis að bjóða bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden ríkisborgararétt á Íslandi. Hún var felld, því miður segi ég því að það er sífellt að koma betur og betur í ljós hvers lags þjóðþrifaverk, það má eiginlega segja alþjóðþrifaverk, það var sem Edward Snowden vann þegar hann ljóstraði upp um njósnir bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar um borgara og stjórnvöld víða um heiminn. Wikileaks greindi frá því í gær að Bandaríkjamenn hleruðu fund aðalritara Sameinuðu þjóðanna og kanslara Þýskalands um loftslagsmál, einnig yfirmann Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, að auki Benjamíns Netanyahus, Berlusconis, Sarkozys og fleiri. Þeim var og er örugglega enn ekkert heilagt í þeim efnum.

Í ljósi þessa var fyndið að heyra formann utanríkismálanefndar Alþingis í umræðum um herinn í gær tala um það góða varnarsamstarf sem stjórnvöld á Íslandi á við yfirvöld í Bandaríkjunum. Það er í það minnsta ljóst að hernaðarsamstarfið er mun nánara Bandaríkjamegin en hjá hinum svokölluðu vinaþjóðum þeirra.

Ég vil segja: Tökum aftur upp mál Edwards Snowdens á Alþingi. Hann hefur ljóstrað upp um mál sem eiga erindi við alla heimsbyggðina. Bjóðum honum hæli á Íslandi. Verum land gagnsæis og borgaralegra réttinda, lýðræðislegra vinnubragða. Það væri jafnframt ánægjulegt í því samhengi ef þingmeirihlutinn mundi hleypa í gegnum þingið máli okkar í Bjartri framtíð um lagalega vernd uppljóstrara, sem við höfum flutt ásamt Pírötum á hverju ári núna um árabil. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna