145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ríkisendurskoðun var að skila skýrslu um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Þar kemur meðal annars fram að sá langi biðtími sem hefur einkennt geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga sé óviðunandi. Ríkisendurskoðun segir að auk þess að ganga gegn lögbundnum skyldum ríkisins stefni þessi bið bæði langtímahagsmunum þess og velferð borgaranna í tvísýnu. Ef ekki er tekið á markvissan hátt á geðheilsuvanda barna og unglinga um leið og hans verður vart aukast til muna líkur þess að þungbærar og langvarandi afleiðingar, jafnvel örorka, komi síðar fram. Í skýrslunni segir enn fremur að stjórnvöld hafi ótvíræðar skyldur þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Lög um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga, lög um málefni fatlaðs fólks og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins tryggi börnum og unglingum rétt til eins fullkominnar heilbrigðisþjónustu og tök eru á að veita og feli stjórnvöldum þá skyldu að sjá þeim fyrir þeirri umönnun sem velferð þeirra krefst.

Það kemur fram að þörf barna og unglinga hér á landi fyrir ítar- og sérþjónustu hefur ekki verið metin, en gengið hefur verið út frá sambærilegri þjónustuþörf hér á landi og í öðrum löndum. Samkvæmt því megi reikna með að um 16 þús. börn og unglingar hér á landi séu í þeirri stöðu að þau muni einhvern tíma þarfnast ítar- eða sérþjónustu vegna geðheilsuvanda. Ríkisendurskoðandi telur að fari hluti þessa hóps á mis við þá þjónustu megi draga í efa að stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar og viðunandi árangri sé náð. Bendir úttekt hans til þess að svo geti verið.

Ég hef margoft bent á það í ræðu og riti hversu alvarlegt ástandið er í þessum málaflokki. Það kemur fram í skýrslunni að frá árinu 2000 hafi verið gefnar út sjö skýrslur og aðgerðaáætlanir þar sem fram kemur að ófremdarástand ríki í þessum málaflokki. Sjö skýrslur og aðgerðaáætlanir, herra forseti, og hver er staðan? Hvað höfum við verið að gera í þessum málaflokki? Er ekki kominn tími til að láta verkin tala eða eigum við að bíða eftir enn einni skýrslunni?

Ráðumst að rót vandans og uppfyllum hinar ótvíræðu skyldur stjórnvalda. Við höfum tækifæri til þess núna, stjórnvöld og þingmenn.


Efnisorð er vísa í ræðuna