145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það virðist vera svo að svört atvinnustarfsemi blómstri sem aldrei fyrr á íslenskum vinnumarkaði og þá sérstaklega á þenslusvæðinu á stór-höfuðborgarsvæðinu gagnvart ungu fólki og útlendingum og oftar en ekki í byggingargeiranum og í ferðaþjónustunni.

Stéttarfélögin hafa orðið vör við þetta og vaxandi brot á fólki og þessi brot eru að verða ósvífnari og alvarlegri en áður þekktist. Þetta er grafalvarleg þróun sem hætt er við að festist í sessi ef ekkert verður að gert. Það ýtir líka undir að samkeppnisaðstaða fyrirtækja veikist þegar svona lagað viðgengst á vinnumarkaði.

Við vitum að verkalýðshreyfingin er núna í átaki gagnvart þessari svörtu atvinnustarfsemi og margt ljótt hefur komið upp á yfirborðið sem er ólíðanlegt, hvernig farið er með launafólk sem þekkir kannski ekki rétt sinn eða er ekki í þeirri félagslegu stöðu að geta sótt rétt sinn. Þar á meðal eru dæmi um, eins og við heyrum í fréttum, að hreinlega hafi mansal viðgengist. Þau tilfelli eru trúlega ekki einu dæmin um slíkt. Það er náttúrlega óhugnanlegt að slíkt viðgangist á íslenskum vinnumarkaði.

Að mínu mati verður að gera meiri kröfur til verkkaupa en nú er. Ekki bara að verkkaupi beri ábyrgð á sínu launafólki heldur allri keðjunni niður úr. Það er orðið mjög algengt að það sé verkkaupi undir verkkaupa og koll af kolli og þetta er löng keðja og enginn telur sig bera ábyrgð á því þó að alls konar sóðaskapur (Forseti hringir.) viðgangist hjá einhverjum undirverktökum.

Ég tel að löggjafinn verði að móta löggjöfina út frá þessu og herða hegningu gagnvart því að brotið sé á íslensku verkafólki.


Efnisorð er vísa í ræðuna