145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

búvörusamningur.

[15:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að hafa þau orð hér í upphafi að tilurð samninga sem þessara er auðvitað löngu þekkt og hefur verið mjög lengi. Upphafið var til að koma í veg fyrir víxlverkun launa og verðlags, sem sagt að koma í veg fyrir að verðbólgan hækkaði, og greiða niður vöruverð til almennings í landinu. Það hefur gengið býsna vel, sem ég get farið betur yfir.

En hins vegar beindi hv. fyrirspyrjandi nokkrum spurningum til mín sem hann fór reyndar ekkert yfir í máli sínu. Þar á meðal var beðið um rökstuðning fyrir löngum búvörusamningi og auknum árlegum ríkisútgjöldum.

Í samningnum um starfsskilyrði nautgripa- og sauðfjárframleiðenda er mikilsverð stefnubreyting sem felst í því að hverfa frá kvótakerfi á samningstímanum. Hvað sauðféð varðar er framleiðslan í dag óháð kvóta en meiri hluti stuðningsgreiðslna tengdur svokölluðu greiðslumarki sem gengur kaupum og sölum milli bænda. En verið er að fara út úr hvoru tveggja.

Í mjólkinni er aðgangur að innanlandsmarkaði og nær allur stuðningur bundinn greiðslumarki. Stefnan er mjög skýr; að feta sig út úr þessu kerfi á samningstímanum, en endanleg ákvörðun bíður endurskoðunar samnings á árinu 2019.

Megintilgangurinn með þessum breytingum er að hverfa frá stuðnings- og markaðsfyrirkomulagi sem eigngerist og veldur stórauknum kostnaði við að stofna til búrekstrar og reka búin. Margir starfandi bændur hafa umtalsverðar skuldbindingar vegna kvótakaupa á síðari árum og því er óhjákvæmilegt að gefa nokkuð rúman tíma og tryggja fyrirsjáanleika í rekstrinum. Sem sagt engar kollsteypur.

Einnig höfum við samþykkt á þinginu ný lög um dýravelferð og sett reglugerðir sem kosta miklar fjárfestingar í landbúnaði og er eðlilegt að það sé ákveðinn fyrirsjáanleiki í því.

Jafnframt má nefna tollasamninginn við Evrópusambandið þar sem eru talsverðar áskoranir fyrir landbúnaðinn í landinu.

Aukningin á fjármagni kemur einkum á fyrstu þremur árunum, fjarar út og síðan verður stuðningurinn með sambærilegum hætti og hann er nú í dag. Hann er aðallega af þrennum toga:

Í fyrsta lagi til að efla framleiðslu á nautakjöti, en nú stendur fyrir dyrum innflutningur á nýju erfðaefni af holdastofnum.

Í öðru lagi tímabundinn stuðningur við svínabændur sem þurfa að gera kostnaðarsamar breytingar á byggingum vegna nýrra reglna um velferð dýra. Það er sambærilegt við það sem gert er annars staðar á Norðurlöndunum.

Síðan í þriðja lagi; greiðslur út á ræktað land sem hafa þann tilgang að breikka stuðningsgrundvöllinn þannig að stuðningur sé ekki eins bundinn við kýr og kindur og verið hefur. Hér er smátt farið af stað en reynist þetta vel er ekki ólíklegt að stuðningur færist í meira mæli í þennan farveg.

Fyrir utan þessi þrjú meginatriði er aukinn stuðningur við lífrænan búskap sem mikið er kallað eftir frá neytendahliðinni, auknar greiðslur til varnar geitastofni og svo tímabundið átak til að láta reyna á möguleika sauðfjárbænda til útflutnings og aukinnar hlutdeildar í veitingamarkaði innan lands.

Þetta eru stóru línurnar í breytingunum. Dálítið hefur verið fjallað um hvort haft hafi verið samráð við aðra. Nú ber nefnilega nýrra við við gerð þessara búvörusamninga. Það hefur sem sagt verið haft samráð við Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin, ASÍ, Viðskiptaráð, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og fleiri og fleiri aðila sem við höfum fundað með, í sumum tilvikum tvisvar og í öðrum tilvikum núna á lokametrunum. Við höfum líka átt samtöl við forustumenn allra flokka hér á þingi til þess að kynna þær breytingar sem fyrirhugaðar voru áður en gengið var frá samningnum.

Af því að talað hefur verið um að fara hefði þurft fram eitthvert lýðræðislegt samtal hér í salnum, er vert að minnast þess að hér fór fram sérstök umræða í haust um gerð nýrra búvörusamninga. Sá sem hóf það mál var varaþingmaður Samfylkingarinnar. Það var prýðisgóð umræða þar sem ræddir voru þeir þættir sem ná síðan að lokum að komast í samninginn, allir þættirnir sem þar var talað um, þak á stuðningsgreiðslur og sitthvað fleira, miklar breytingar. Það er því ekki svo að ekki hafi verið haft samráð við einn eða neinn.

Það er líka rétt að nefna það hér, og þetta eru tölur frá OECD, að árið 1986 nam stuðningur við landbúnaðinn um 5% af landsframleiðslunni. Árið 2014 var hann kominn niður í 1,1%, og það er þá bæði beinn stuðningur og tollvernd. Aðrir aðilar innan OECD fóru á sama tíma úr 2,8% niður í 0,8%, þannig að við erum að nálgast OECD mjög hratt. Evrópusambandið er nær 0,9%.

Svo er spurt: Hefur þessi stuðningur verið góður? Já, hann hefur verið góður. Hann hefur komið neytendum verulega til góða. Í Eurostat í desember 2015 kom fram að (Forseti hringir.) matarverð á Íslandi var það lægsta á Norðurlöndunum, þannig að þetta hefur gengið eftir. (Forseti hringir.)

Ég hlakka til að heyra málefnalega umræðu frá fleiri þingmönnum í dag.