145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

búvörusamningur.

[15:55]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu hér þó að ég geti sagt að það hafi komið mér á óvart í inngangi hans að mér fannst hann ekki hafa áttað sig á helstu efnisatriðum samningsins og ekki náð að fóta sig alveg þegar kemur að honum.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað á þessu kjörtímabili, eins og margar ríkisstjórnir þar á undan, komið að lausnum kjarasamninga á vinnumarkaði. Ríkisstjórnin hefur með aðgerðum sínum stuðlað að því að kjarasamningar hafa náðst. Stjórnarmeirihlutinn núna hefur með ýmsum öðrum aðgerðum styrkt og eflt rekstrarumhverfi atvinnugreina. Ég nefni að með lækkun vörugjalda og tolla höfum við styrkt verslun. Það stóð sérstaklega á forsíðu þeirra þingmála sem voru flutt til þess að fylgja þeirri breytingu úr hlaði að við værum að flytja verslunina heim, efla hana og styrkja.

Við höfum endurskoðað veiðigjöld í sjávarútvegi og við höfum stuðlað að atvinnuuppbyggingu með endurskoðun laga um ívilnanir. Allt eru þetta atriði sem við höfum gert til að tryggja atvinnulífið til lengri tíma. Það er á þeim meiði sem við eigum að skoða og ræða búvörusamninga, búvörusamninga sem nú voru gerðir í fyrsta sinn til tíu ára, áður voru þeir yfirleitt gerðir til sjö ára, og í fyrsta sinn með mjög sterkum opnunarákvæðum. Ég ítreka að í mínum huga er mikill misskilningur að búið sé að klappa í stein til tíu ára eitthvert svokallað kerfi sem ekki má breyta. Það er síður en svo, það eru tvær sterkar og miklar opnanir á þessum samningum.

Við erum líka að gera þessa samninga við atvinnugrein sem búið er að leggja þunga krossa á, eins og hefur verið vikið hér að, var gert í ræðu hæstv. ráðherra, mjög íþyngjandi aðgerð í aðbúnaðarreglugerðum sem mun kosta landbúnaðinn tæplega 30 milljarða, aðeins til þess að halda í horfinu. Það er líka tengt þessum samningi innleiðing á nýgerðum tollasamningi við Evrópusambandið, að ég trúi, sem mun enn frekar herða starfsskilyrði landbúnaðarins.