145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

búvörusamningur.

[16:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á tímum þegar fluttir eru inn norskir ísmolar hljótum við að velta fyrir okkur hvort það sé endilega gott mál, t.d. þegar við erum að tala um loftslagsmarkmið. Af þeim sökum tel ég mjög mikilvægt að við hugum að því hvernig við getum eflt innlenda landbúnaðarframleiðslu, matvælaöryggi og fæðuöryggi, og að við látum af hlutum eins og að flytja ísmola á milli landa sem væntanlega stangast verulega á við þau loftslagsmarkmið sem Ísland hefur undirgengist.

Ég vil segja hér í upphafi að í fyrsta lagi finnst mér gott að ákveðin umhverfissjónarmið koma inn í samninginn. Ég hefði viljað sjá þau sterkar orðuð og ég hefði viljað sjá loftslagsmarkmið nefnd sérstaklega. Þarna er talað um að gæta sjónarmiða um velferð dýra, heilnæmi afurða, umhverfisvernd og sjálfbæra landnýtingu, en ef við skoðum þessi mál út frá þessu stóra máli ættu þau sjónarmið að vera talsvert meira áberandi í þessu samhengi. Innlendur landbúnaður er nefnilega mikilvægur út frá mörgum sjónarmiðum, ekki bara út frá loftslagsmálum heldur líka út frá neytendavernd, út frá hagsmunum okkar sem búum hér og til að tryggja matvæla- og fæðuöryggi. Þar með er ekki sagt að ég telji ekki ýmislegt sem þurfi að ræða varðandi þennan nýja búvörusamning.

Hæstv. ráðherra lýsti yfir vilja til samráðs og vissulega talaði hæstv. ráðherra við mig og greindi mér frá meginlínum í samningunum en samt er verið að stilla Alþingi upp við vegg ef búið er að afgreiða málið í raun af hálfu framkvæmdarvaldsins og Bændasamtakanna þegar það kemur til afgreiðslu á Alþingi, mál sem snýst um að við séum að skuldbinda mikla fjármuni, verðtryggt til tíu ára. Þannig liggur fyrir að verðtryggingin verður ekki afnumin fyrr en að þeim árum liðnum. Það er auðvitað veikleiki á málinu að ekki sé haft meira þverpólitískt samráð til að tryggja sátt um það mikilvæga yfirmarkmið að innlendur landbúnaður fái að blómstra.

Það eru ýmis mál sem næst ekki að ræða í þessari umræðu. Ég hefði viljað ræða velferð dýra, m.a. aðbúnað svínabænda sem er hugað að í samningunum. Kjúklingabændur virðast (Forseti hringir.) hins vegar ekki koma eins vel út úr þessum samningum og svínabændur. Ég vil líka segja að lokum að gamalkunnugar áhyggjur vakna af offramleiðslu með því að afnema framleiðslutenginguna og tenginguna við innanlandsmarkað.

Ég sé að ég mun þurfa að koma hingað og ræða þetta mál síðar þegar það kemur inn í þing.