145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

búvörusamningur.

[16:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Blekið var ekki þornað á þessum búvörusamningum og ég hafði ekki kynnt mér efni þeirra þegar ég heyrði hæstv. forsætisráðherra segja að gagnrýni á samningana væri ómakleg og í rauninni gagnrýni á og andstyggð gagnvart bændum í landinu, bændastéttinni. Mér finnst mjög vond aðferðafræði að nálgast þessa umræðu með svona tilraunum til að setja tóninn fyrir fram þegar kemur að því að ræða þetta brýna og mikla hagsmunamál þjóðarinnar allrar.

Hér er um að ræða samning til tíu ára. Það er leiðinlegt að vera sá sem segir hæstv. landbúnaðarráðherra að umboð hans sé ekki nema fram á vor á næsta ári, (HHj: Í mesta lagi.) í mesta lagi eins og hér er bent á í sal, og að samningarnir nái (Gripið fram í.) því til mjög langs tíma umfram það sem umboð hæstv. ráðherra nær. Þegar menn ætla að undirbyggja mál sín í svona langan tíma þurfa þeir að gera það með breiðari sátt en hér um ræðir.

Það eru ágætishlutir í þessum samningi sem mér líst ágætlega á, t.d. áhersla á lífræna ræktun og matvælaframleiðslu. Ég hefði viljað sjá meira af svoleiðis hlutum. Ég hefði viljað sjá meira af tilraunum til að komast út úr þessu kerfi.

Við erum með miklu stærri markað þegar kemur að öllum þeim mikla fjölda ferðamanna sem sækir okkur heim. Í því hljóta að felast einhver tækifæri. Það getur ekki verið að við þurfum á því að halda að vera með innflutningshöft og tollkvóta og getum ekki aukið samkeppni þegar markaðurinn er orðinn þetta stór.

En fyrst og síðast verðum við að geta tekið þessa umræðu öðruvísi en að manni finnist eins og maður sé gestur, að hótelið sé Hótel Adam og að það sé alltaf verið að segja manni eitthvert bull.