145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

matvæli, slátrun og eftirlit með fóðri.

545. mál
[16:18]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um matvæli, lögum um slátrun og sláturafurðir og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, sem er þingskjal 871, mál nr. 545.

Með frumvarpinu eru lagðar til tvennar breytingar á reglum varðandi matvælaframleiðslu. Annars vegar varðandi eftirlit með frumframleiðslu matjurta og hins vegar varðandi starfsleyfisskyldu þeirra er framleiða matvæli úr kapla-, geita- og sauðamjólk.

Jafnframt er í frumvarpinu lagðar til tvennar breytingar sem gera íslenska ríkinu kleift að uppfylla skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að opinbert eftirlit með frumframleiðslu matjurta verði fært frá Matvælastofnun til heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, fer Matvælastofnun með eftirlit með frumframleiðslu. Í 14. gr. sömu laga segir að heilbrigðisnefnd hafi opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu efna og hluta sem ætlað er að verði í snertingu við matvæli. Í dag er eftirlit með matjurtum því á hendi tveggja aðila; frumframleiðslan hjá Matvælastofnun en eftirlit með pökkun og dreifingu hjá heilbrigðisnefndum.

Lögð er til breyting á a-lið 6. gr. laga um matvæli þannig að eftirlit með frumframleiðslu matjurta verði undanskilið frá verksviði Matvælastofnunar. Samkvæmt 22. gr. sömu laga mun eftirlit með þessari framleiðslu þá vera hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga.

Breytingar samkvæmt frumvarpi þessu mun einfalda aðstæður fyrir framleiðendur matjurta sem munu eingöngu vera undir eftirliti eins aðila. Það er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið.

Ekki er því gert ráð fyrir að færsla á þessu eftirliti til sveitarfélaganna muni hafa teljandi fjárhagsáhrif, hvorki fyrir ríkissjóð né sveitarfélög.

Með frumvarpi þessu er í öðru lagi lagt til að í 9. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, verði kveðið á að matvælafyrirtæki sem framleiða matvæli úr kapla-, geita og sauðamjólk skuli hafa starfsleyfi. Í gildandi ákvæði eru þrenns konar matvælafyrirtæki undanþegin starfsleyfi opinbers eftirlitsaðila, þ.e. þau sem annast frumframleiðslu matjurta auk þeirra sem stunda sauðfjárrækt eða hrossarækt. Staðan í dag er því þannig að frumframleiðsla kúamjólkur er starfsleyfisskyld en ekki framleiðsla matvæla úr kapla-, geita- eða sauðamjólk. Talið er rétt að sömu skilyrði eigi við allar tegundir mjólkur enda eru allar vörurnar viðkvæmar frá örverufræðilegu sjónarmiði og falla jafnframt allar undir reglugerð um mjólkurvörur sem er sett með heimild í lögum nr. 93/1995, um matvæli.

Framleiðendur munu greiða kostnað við veitingu starfsleyfa. Er áætlað að veiting starfsleyfis í Matvælastofnun verði innan við 20 þús. kr.

Í þriðja lagi er lagt til að matvælafyrirtæki sem framleiða baunaspírur skuli hafa starfsleyfi. Tillaga þessi er til komin vegna skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum, nánar tiltekið reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 210/2013, um samþykki fyrir starfsstöðvum sem framleiða spírur, samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 852/2004. Reglugerð þessi kveður á um að stjórnendur matvælafyrirtækja skuli tryggja að starfsstöðvar sem framleiða spírur séu samþykktar af lögbæru yfirvaldi. Þá setur reglugerðin kröfur er varða samþykki fyrir þeim.

Ástæðan fyrir því að spírur eru teknar út fyrir sviga er að upp kom stórt vandamál þar sem fjöldi fólks dó af matvælasýkingu vegna neyslu á baunaspírum í Þýskalandi fyrir nokkrum árum.

Í 9. gr. laga um matvæli segir að matvælafyrirtæki sem annast frumframleiðslu matjurta þurfi ekki starfsleyfi en þurfa að tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína áður en hún hefst. Ljóst er að innleiðing á ákvæðum reglugerðar Evrópusambandsins, sem ég nefndi áðan, mun stangast á við þetta ákvæði laga nr. 93/1995, um matvæli. Er því talin þörf á breytingu af því tagi sem lögð er til hér. Matvælafyrirtæki sem framleiða spírur munu verða fyrir kostnaðarauka en hann er talinn óverulegur.

Í dag eru frumframleiðendur á spírum tveir á Íslandi og undir eftirliti heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis.

Það er kannski rétt að geta þess að það er mjög hollt að borða baunaspírur, sérstaklega þær sem eru framleiddar á Íslandi því að þær eru vökvaðar með almenningsvatni en ekki skolpvatni, eins og oft er gert við grænmetisræktun í öðrum löndum.

Loks eru í fjórða lagi lagðar til breytingar á ákvæðum um heimild ráðherra til að innleiða með reglugerð reglur Evrópusambandsins varðandi aukaafurðir úr dýrum og afurðir unnar úr þeim. Í gildandi lögum, nánar tiltekið 17. gr. laga nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir, og 5. mgr. 7. gr. laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, er ráðherra veitt heimilt til að innleiða eldri reglur EB varðandi aukaafurðir úr dýrum, þ.e. reglugerð EB nr. 1774/2002.

Nú hafa nýjar reglugerðir tekið gildi sem leysa eldri reglur af hólmi, nánar tiltekið reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1069/2009 og reglugerð framkvæmdarstjórnar nr. 142/2011. Þessar reglugerðir hafa verið teknar upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 197/2015.

Ljóst er að lagaákvæðin sem ég nefndi veita ráðherra ekki heimild til að setja reglugerð sem innleiðir nýjar reglur um aukaafurðir dýra og þarf því að breyta þessum ákvæðum til að það sé hægt.

Frumvarp þetta hefur verið samið í samráði við Matvælastofnun. Frumvarpið var sent Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Bændasamtökum Íslands til umsagnar. Samband íslenskra sveitarfélaga sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti athugasemdir og eftir nánara samráð við Matvælastofnun ákvað ráðuneytið að fara að tillögum sambandsins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu þess og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.