145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

styrkir vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi.

369. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá allsherjar- og menntamálanefnd með breytingartillögu um frumvarp til laga um styrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi (miðastyrkir) við 2. umr. Nefndarálitið er að finna á þskj. 870 og frumvarpið sjálft á þskj. 502.

Nefndin hefur fjallað um málið og bárust umsagnir frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, Samtökum iðnaðarins, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Samtökum kvikmyndaleikstjóra. Nefndin fékk til sín gesti frá þessum sömu aðilum auk gesta frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Er gestunum þakkað þeirra framlag.

Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að greiða sérstaka miðastyrki úr ríkissjóði vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi ef myndirnar eru unnar og kostaðar af framleiðendum með staðfestu á Íslandi eða í EES-ríki. Frumvarpið tekur til mynda þar sem frumútgáfan er á íslensku og þannig ekki til talsetts efnis, samanber 2. gr. Styrkirnir verða greiddir eftir á, þ.e. eftir að sýningum mynda lýkur, samanber 3. gr., og styrkur til hverrar kvikmyndar skal vera í hlutfalli við heildarandvirði seldra aðgöngumiða að sýningum á viðkomandi kvikmynd í kvikmyndahúsi hér landi, samanber 4. gr. Með frumvarpinu er efnt samkomulag stjórnvalda annars vegar og Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félags kvikmyndagerðarmanna og Samtaka kvikmyndaleikstjóra hins vegar frá árinu 2011 um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012–2015. Samkomulagið fól í sér að greiddir yrðu miðastyrkir til að vega upp á móti því að undanþága frá virðisaukaskatti af sölu aðgöngumiða að sýningum á íslenskum kvikmyndum var felld brott með lögum nr. 146/2012, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Samkvæmt samkomulaginu skyldu styrkir aldrei verða hærri en fjárveitingar Alþingis í fjárlögum hverju sinni, samanber einnig lokamálslið 1. gr. frumvarpsins, og í fjárlögum fyrir árin 2013–2016 voru ákveðnar 30 millj. kr. árlega til þessa og 15 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2012, eða samtals 105 millj. kr.

Vegna athugasemda sem nefndinni bárust og athugasemda í umsögn skrifstofu opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu telur nefndin rétt að skýra nánar hvernig efni frumvarpsins kemur við reglur EES-samningsins um ríkisaðstoð vegna kvikmyndagerðar. Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið fela styrkir til kvikmyndagerðar í sér ríkisaðstoð í skilningi 2. kafla EES-samningsins og falla miðastyrkir þar undir. Fjárhæð þeirra er hins vegar hlutfallslega lág og rúmast þeir því innan reglna sem gilda um minniháttaraðstoð, samanber reglugerð framkvæmdastjórnar ESB nr. 1407/2013, um breytingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 1165/2015. Aðrir styrkir sem framleiðendur kvikmynda geta fengið hér á landi geta komið til skoðunar, en þeir eru styrkir samkvæmt lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, og styrkir úr Kvikmyndasjóði, samanber reglugerð um Kvikmyndasjóð, nr. 229/2003.

Samkvæmt ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá árinu 2012 gilda tvenns konar efri mörk á Íslandi hvað varðar ríkisaðstoð til hljóð- og myndverkefna á grundvelli þessara tveggja styrkjakerfa. Þau miðast annars vegar við 50% af kostnaði sem er hið almenna hámark og hins vegar við 85% af kostnaði sem gildir þegar um kvikmynd á íslensku er að ræða. Þegar kvikmynd hefur hlotið styrk úr öðru hvoru styrkjakerfinu þarf að gæta að 85% hámarkinu þegar minniháttaraðstoð er veitt, t.d. í formi miðastyrkja. Sé stuðningur úr fyrrnefndum tveimur styrkjakerfum sérstaklega bundinn við aðra kostnaðarliði en þá sem minniháttaraðstoðin tekur til getur minniháttaraðstoðin komið til viðbótar og hlutfallið farið yfir 85%. Þarf því að hafa í huga hvaða styrkir hafa áður verið veittir og vegna hvaða kostnaðarliða þegar gætt er að hámarkshlutfalli styrkja, samanber 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins.

Nefndin áréttar einnig að miðastyrkjum er ætlað að mæta auknum kostnaði þar sem undanþága frá virðisaukaskatti af aðgöngumiðum var felld niður. Þannig er styrkjunum ætlað að mæta þeim kostnaði sem kvikmyndaframleiðendur verða fyrir á því ári þegar aðgöngumiði er seldur. Á grundvelli þessa sjónarmiðs verður ekki talið að rétt sé að færa fjárheimildir milli ára. Þá var það mat mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem nefndin tekur undir, að rétt væri að úthluta þeim fjárheimildum sem þegar hefðu verið ákveðnar hlutfallslega eftir sölu á aðgangsmiðum, samanber 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins, enda með því mögulegt að úthluta öllu því fé sem veitt hafði verið heimild fyrir í fjárlögum síðustu ára. Af þessu leiðir að hlutfall styrks af hverjum miða verður misjafnt milli ára. Hér er hins vegar um tímabundna ráðstöfun að ræða og eðlilegt að í framtíðarfyrirkomulagi sem unnið er að við gerð frumvarps til nýrra kvikmyndalaga verði styrkir hlutfallslega jafnir. Þar sem tilgangur frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar er að mæta auknum kostnaði sem kvikmyndaframleiðendur urðu fyrir í samræmi við samkomulag þeirra og stjórnvalda leggur nefndin til að til viðbótar árunum 2013–2016 verði miðastyrkir einnig greiddir fyrir árið 2012 í samræmi við samkomulagið og fjárheimildir í fjárlögum fyrir árið 2012, enda kom fram á fundum nefndarinnar að kvikmyndaframleiðendur urðu á því ári fyrir auknum kostnaði vegna samkomulagsins sem ekki hefði komið til ef undanþága frá virðisaukaskatti hefði verið felld niður ári fyrr en raunin varð.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu: Í stað ártalsins „2013“ í 3. málslið 1. gr. komi: 2012.

Undir álitið rita Unnur Brá Konráðsdóttir formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Guðmundur Steingrímsson, Haraldur Einarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Vilhjálmur Árnason en Jóhanna María Sigmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þá hefur verið gerð grein fyrir nefndarálitinu. Framsögumaður óskar svo eftir því að málið verði kallað til nefndar á milli umræðna svo tækifæri gefist til að fara enn frekar yfir sjónarmið varðandi tilfærslu fjárheimilda milli ára.