145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[16:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir fína framsögu fyrir áliti utanríkismálanefndar um þingsályktunartillögu sem ég flutti ásamt nokkrum öðrum hv. þingmönnum og varðar fríverslun við Japan. Ég tel að meðferð og vinna nefndarinnar að þessu máli hafi verið mjög til fyrirmyndar. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er í þágu okkar Íslendinga, íslenskra neytenda, íslenskra útflutningsfyrirtækja, ef tekst að ná fríverslun við Japan. Þessi tillaga skiptir miklu þegar að því kemur að hæstv. ríkisstjórn greiði sinn atbeina til þess að ná því markmiði tillögunnar.

Þetta mál naut mikils stuðnings við umræður á þessum vetri og sömuleiðis í fyrra. Ég vil sérstaklega þakka félögum mínum í hv. utanríkismálanefnd fyrir að hafa lagt liðsinni sitt til þess að tillagan var samþykkt að undangenginni ítarlegri umfjöllun á síðasta þingvetri.

Ég tel, herra forseti, að þetta sé til marks um það með hvaða hætti er hægt að ástunda vönduð vinnubrögð á hinu háa Alþingi. Hér er um að ræða tillögu sem flutt er af þingmönnum úr mörgum flokkum sem augljóslega varðar ekki nein flokkspólitísk ágreiningsmál heldur hnígur fyrst og fremst að því að efla heill hins íslenska samfélags. Við slíkar aðstæður skiptir miklu máli að þingið taki slík mál í sinn faðm og greiði þeim sinn atbeina. Það gerðist í þessu máli. Þess vegna vil ég þakka sérstaklega framsögumanni, sömuleiðis þeim sem upphaflega var settur til að hafa framsögu fyrir málinu, hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni, og sömuleiðis formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Það vill svo til að sérstök rök hníga að því að einmitt sé lagt í þessa vegferð núna. Japan hefur verið eins og kom fram í máli hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur tiltölulega lokað land, það er enn þá lokað að mörgu leyti. Hins vegar hefur núverandi ríkisstjórn undir forustu Shinzos Abes gert það að sérstöku metnaðarmáli sínu að rjúfa einangrun Japans. Við sjáum að hann hefur lagt fram margvísleg mál sem hann er að reyna að nota til þess að koma á umbótum í Japan, m.a. til þess að brjótast út úr þeirri herkví stöðnunar sem hefur verið þar nánast á þriðja áratug í efnahagslegu tilliti.

Eitt af því sem forsætisráðherra Japans hefur lagt áherslu á er einmitt að auka hlut fríverslunar í milliríkjaversluninni. Í fyrra þegar þessi tillaga var lögð fram þá skoðaði ég sem fyrsti flutningsmaður tillögunnar hvernig hlutur fríverslunar var í milliríkjaverslun Japana. Í ljós kom að hann nam ekki nema fimmtungi. Shinzo Abe forsætisráðherra hefur lagt það fram sem sitt takmark að auka hlut fríverslunar upp í 80% af milliríkjaverslun. Það skiptir því máli þegar þessi yfirlýsing liggur fyrir, sem kom ekki fram fyrr en 2012, að þau ríki sem hafa áhuga á því að notfæra sér þessa opnun doki ekki við.

Sömuleiðis sem athygli vekur út frá stöðu Íslands sérstaklega kom fram sú stefna sem birt er á heimasíðu japanska utanríkisráðuneytisins að japönsk stjórnvöld mundu leggja áherslu á að gera fríverslunarsamninga fyrst við þau ríki sem hefðu yfir sterkum auðlindum að ráða og sömuleiðis þau sem framleiddu heilnæm matvæli. Hvort tveggja á við Ísland. Þetta er enn eitt sem veldur því að tímabært er að við ráðumst í þessa vegferð.

Við Íslendingar höfum líka átt mjög góða samvinnu við Japana áratugum saman. Ég hef jafnan getið þess þegar ég hef rætt um samskipti Íslands og Japans að segja má að Japanar og Íslendingar hafi nánast í samvinnu byggt upp orkuiðnaðinn á Íslandi. Til skamms tíma voru allar túrbínur í hinum stóru orkuvirkjum sem Íslendingar nota til þess að framleiða endurnýjanlegt rafmagn frá Japan. Það voru Japanar sem sömuleiðis fjármögnuðu þær allar götur frá því við byrjuðum með fyrstu stórvirkjanirnar, þannig að um 30 ára skeið hafa þeir lagt gjörva hönd að því að byggja upp þennan merka atvinnuveg á Íslandi. Það er því hefð fyrir samvinnu ríkjanna.

Vinátta okkar birtist með mörgum annars konar hætti líka. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og ýmissa alþjóðlegra stofnana erum við og Japanar jafnan í hópi hinna svokallaðra svipað þenkjandi ríkja, þ.e. það eru ríki sem berjast t.d. fyrir framgangi aukinna mannréttinda víðs vegar um heiminn og reyna að sameina stefnu sína til þess að ná þeim fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með því að samþætta tillögugerð sína og standa saman að ýmiss konar tillögum. Ástæðan er vitaskuld sú að Japanar hafa byggt sitt samfélag á sömu gildum og við, þ.e. á reglum réttarríkisins, á lýðræði og mannréttindum. Þetta skiptir máli. Það er ekki síst í því ljósi að við höfum átt sameiginlega vegferð í gegnum tímann sem við getum kallað til þess að þeir taki þátt í og hlusti á umleitan okkar um fríverslun.

Það má náttúrlega geta þess líka í þessari ræðu, herra forseti, að þegar bankahrunið var hér á Íslandi 2008 þá voru Japanar hinir fyrstu sem stigu fram og lögð til að AGS, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, mundi rétta Íslendingum hjálpandi hönd. Og vert er að minnast þess að þáverandi fjármálaráðherra Japana var þá staddur á fundi í Bandaríkjunum og lýsti því yfir við blaðamenn að hann teldi að Japanar mundu vera reiðubúnir til þess að auka framlög sín til AGS í því skyni að rétta Íslendingum það liðsinni sem við þurftum í formi gjaldeyrisláns. Forsætisráðherra Japans tók síðan mjög rækilega undir það. Þetta endurspeglar í sjálfu sér ákveðið vináttuþel af hálfu Japana.

Hinu er ekki fyrir að synja að Japanar hafa ekkert verið sérstaklega ginnkeyptir fyrir því að taka upp fríverslunarviðræður við okkur. Hugsanlega hafa Íslendingar ekki knúið nægilega fast á um það. Þeir hafa stundum bent á að Ísland sé lítið land á meðan Japan sé mjög stórt. Íslendingar hafa aldrei fallist á slík rök. Við höfum aldrei fallist á það að smæð okkar eigi að leiða til þess að við njótum ekki sömu möguleika og aðrar þjóðir.

Hins vegar er það líka þannig eins og mér finnst rétt að komi fram í þessum tengslum að Japan hefur haft loftferðasamninga við öll Norðurlöndin nema Ísland og hefur ekki viljað taka upp slíkan samning við okkur jafnvel þó að íslensk flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki hafi leitað eftir því.

Þá verð ég að segja, herra forseti, að andspænis hinni góðu samferð Japana og Íslendinga í gegnum síðustu sex áratugi, allar götur frá því við tókum upp formlegt stjórnmálasamband á millum þjóðanna í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar, er bókstaflega ekki hægt finnst mér að taka við nei-i sem gildu svari. Þess vegna skiptir það máli gagnvart Japan að það komi skýrt fram að það er ekki bara hugdetta einhvers ráðherra, það er ekki bara ríkisstjórn sem telur að þetta sé rétt, heldur hefur sjálf löggjafarsamkundan lagt lóð sitt á þessa vogarskál.

Þá er rétt að vekja eftirtekt á því, herra forseti, að þegar aðstoðarutanríkisráðherra Japans kom til heimsóknar til Alþingis í fyrra þá hitti hann fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. Makino aðstoðarutanríkisráðherra sagði eftir þann fund að það hefði komið honum á óvart að það sem allir fulltrúar íslensku þingflokkanna hefðu lagt mesta áherslu á var að teknar yrðu upp viðræður um fríverslun. Hann sagðist fara heim með það í farteskinu og þann vilja.

Núna er tíminn vegna þess, eins og kom fram í hinu ágæta nefndaráliti sem flutt var hér áðan, að sérstök tímamót verða í samskiptum Íslands og Japans á þessu ári. Núna verða senn liðin 60 ár frá því að Ísland og Japan tóku upp stjórnmálasamband. Ríki minnast slíkra tímamóta með margvíslegum hætti. Oft er efnt til rismikilla menningarviðburða. Skemmst er að minnast til dæmis nýlegs afmælis á stjórnmálasambandi Íslands og Rússlands sem var minnst með heimsókn Bolshoi-ballettsins, með listasýningu á Kjarvalsverkum í Pétursborg og margvíslegu öðru móti. Ríki reyna líka mjög oft að hnýta þau bönd sem þeirra liggja á millum enn fastar á slíkum tímamótum með því að gera samninga sem gilda og sem gefa báðum þegnum beggja einhvers konar aukin gæði.

Þess vegna held ég miðað við það hvernig Japanar hafa lýst vilja til þess að auka hlut fríverslunar, miðað við það hvernig þeir hafa skilgreint þau ríki sem ættu að hafa forgang, og sér í lagi standandi á stöpli þeirrar staðreyndar að við höldum núna á þessu ári upp á 60 ára afmæli stjórnmálasambands okkar, að þetta sé hinn rétti tími fyrir íslensku ríkisstjórnina að leggja í þessa vegferð og hafa nú að baki sér fullgilda samþykkt löggjafarsamkundunnar líka. Það gefur ákveðið aukið vægi gagnvart þeirri málaleitan.

Herra forseti. Ég tek svo fram að lokum að auðvitað má velta því fyrir sér af hverju þessi tillaga felur í sér að gerður verði tvíhliða samningur við Japan en ekki eins og við gerum endranær, förum í gegnum Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, þar sem við höfum gert fast að 30 samninga í gegnum. Ástæðan er sú að Svisslendingar sem þar eru á fleti fyrir ásamt okkur kusu sjálfir að bíða ekki heldur gera strax slíkan samning við Japan og þeim tókst það á undraskjótum tíma. Þess vegna er enginn sérstakur áhugi til þess að beita EFTA í því þar sem Svisslendingar, sem eru ásamt okkur með þeim öflugustu þar innan dyra, eru búnir að ná fram slíkum samningi.

Ég held hins vegar miðað við styrkleika japanska ríkisins, miðað við hlut þeirra í útflutningsversluninni og stöðu hátækni þar í landi, að mjög mörg ríki muni reyna að freista þess núna í kjölfar opnunar núverandi ríkisstjórnar Japana gagnvart aukinni fríverslun að sækja um og reyna að ná samningi við japönsku ríkisstjórnina. Þess vegna tel ég að ekki sé eftir neinu að bíða. Ég held að það skipti máli að við notum þá vinda sem blása í bakið á okkur og hvata að þessari för og gerum þetta einmitt núna. Það er ekki eftir neinu að bíða. Það hefur hið háa Alþingi skilið. Það er þess vegna sem þetta mál er komið svo langt. Við eigum að nota þann byr til þess að samþykkja þetta og efla þannig styrk ríkisstjórnarinnar þegar hún framkvæmir vilja löggjafans og setur fram ósk sína um fríverslun við Japan.