145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[16:53]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem, eins og aðrir sem hér hafa komið upp, til að fagna því hvað málið hefur verið unnið fljótt og vel í hv. utanríkismálanefnd. Komið hefur fram að þessi tillaga er nú flutt í þriðja á hinu háa Alþingi og er ekki svo langt síðan 1. flutningsmaður málsins, hv. þm. Össur Skarphéðinsson flutti þessa tillögu og málið gekk til nefndar.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég er mjög ánægður með svona vinnubrögð. Ég er ánægður með að mál frá þingmönnum séu ekki látin daga uppi. Það er dæmi um breytta tíma á Alþingi. Ef ég hugsa til upphafsára minna á Alþingi þá gerðist það ekki mjög oft. Þetta er góð tillaga og nefndin hefur unnið málið fljótt og vel. Nú er síðari umræða um það og verður málið þá tekið til atkvæðagreiðslu í næstu viku og samþykkt, hvort sem það verður nú á mánudag eða þriðjudag, væntanlega.

Ég vil jafnframt þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir málafylgju við þetta mál og fyrir að láta ekki deigan síga þrátt fyrir að það hafi farið á tvö þing, en á síðasta þingi var málið klárað og tekið úr nefnd. Mér sýnist nefndarálit hv. nefndar sé mjög í takt við það sem þá var, enda var málið þá fullunnið og fullrætt þó svo að það hafi ekki komist til atkvæða í lok síðasta þings. Mér finnast þetta góð vinnubrögð. Það vekur upp hugsanir hjá mér um breytingar á stjórnarskrá varðandi það að mál sem flutt eru á Alþingi geti lifað eitt eða tvö þing, að það þurfi ekki alltaf að endurflytja þau. Þetta er gott dæmi um það.

Þetta mál um að fela ríkisstjórninni að taka upp og hefja undirbúning að fríverslunarsamningi við Japan á grundvelli yfirlýsingar japönsku ríkisstjórnarinnar um að auka hlut fríverslunar í milliríkjaviðskiptum eins og tillagan fjallar um, er mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga, alveg sérstaklega hvað varðar sjávarútveginn. Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um sjávarútveginn og sagt að árið 2013 hafi andvirði útfluttra sjávarafurða verið næstum 8 milljarðar, eða 2/3 af útflutningi Íslendinga til Japans. Íslendingar hafa selt þar karfa, grálúðu, lax og loðnu, auk þess sem markaðir hafa þróast fyrir nýja framleiðslu svo sem loðnuhrogn. Nefni ég loðnuhrogn vegna þess að ég held að nú sé rétt að hefjast vinna við loðnuhrogn á loðnuvertíð.

Þá kem ég að því sem er svo mikilvægt, þ.e. að allt það sjávarfang sem kemur frá Íslandi ber toll við útflutning. Með fríverslunarsamningi fellur hann niður. Þá sést strax hvað þetta er mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg og fyrir okkur til þess að getað þróað og flutt meira út til Japana sem vilja óðir kaupa sjávarafurðir okkar.

Það kemur okkur Íslendingum til góða. Við flytjum töluvert mikið inn frá Japan, eins og bifreiðar og fleira, þó svo að þær séu sagðar vera tollfrjálsar hér. En tollfrelsi hefði í för með sér bætt skilyrði fyrir innflutning íslenskra afurða til Japans og yrði íslenskum neytendum til hagsbóta til kaupa á japönskum vörum hér á landi, líkt og gerðist við fríverslunarsamning við Kína sem gerður var að frumkvæði og eftir tillögu frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í að ræða þetta mál en bara fagna tillögunni og málafylgjunni og þakka utanríkismálanefnd, undir stjórn hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir skjót og góð vinnubrögð við að koma þessari tillögu til síðari umr. og til samþykktar á hinu háa Alþingi vonandi í næstu viku. Ég held að það sé gott veganesti fyrir þá sem eru að fara í sendiferð til Japans á vegum utanríkismálanefndar.