145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[16:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu neitt að ráði. Ég kem hér fyrst og fremst til að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta góða mál og minnast á það að ég tel fríverslun við ríki sem hafa okkar sameiginlegu grunngildi, lýðræðislegu gildi um frelsi og lýðræði og mannréttindi, sé afskaplega mikilvægur þáttur í því að tryggja frið til lengri tíma á jörðinni. Mér finnst það mjög jákvætt að slík ríki geri með sér samninga sem geri þeim auðveldara að eiga samskipti með verslun og hafa samskipti almennt.

Þá verð ég að nefna persónulega skoðun sem ég hef öðlast heldur nýlega og hún er sú að mér þykja tollar alveg sérlega andstyggilegt form af gjaldtöku af hálfu ríkis, mér finnst þeir afskaplega vond leið. Þó að þeir skili tekjum finnst mér samt sem áður alltaf mikilvægt að við höfum í huga hvaða siðferðislega réttlæting liggi að baki hvers konar gjaldtöku. Hið sama gildir um tekjuskatt og virðisaukaskatt og aðra gjaldtöku, nema þar þykja mér réttlætingarnar talsvert sterkari.

Þegar kemur að tollum þá hefur mér löngum ekki fundist það rétt að heimta gjald fyrir það eitt að leyfa ákveðnum gæðum hér að vera þarna, mér finnst það mjög vafasamt, svo að meira verði ekki sagt og ég er sjálfur á móti því. Þess vegna fagna ég svona löguðu.

Aftur á móti finnst mér mjög mikilvægt að við einbeitum okkur fyrst og fremst að fríverslunarsamningum og slíku með öðrum þjóðum sem deila okkar gildum um frelsi, lýðræði og mannréttindi. Mér þykir það mikilvægast, í það minnsta forgangsröðunin. Nú ber ég fulla virðingu fyrir þeim rökstuðningi að til þess að auka áhrif okkar í sambandi við mannréttindi, frelsi og lýðræði við ríki þar sem þessi gildi eru í það minnsta ekki jafn rótgróin, þá sé mikilvægt að við séum í nánum tengslum og samskiptum við þau ríki. Ég ber virðingu fyrir því sjónarmiði, en mér þykja aðrir þættir einnig spila inn í, svo sem stærðarmunur og því um líkt.

Ég fór nú heldur ítarlega yfir þessi sjónarmið held ég hérna við fyrri umræðu, þannig að ég get bara aftur lýst yfir stuðningi mínum við þetta góða mál og ég þakka hinum sérlega hv. 4. þm. Reykv. n. Össuri Skarphéðinssyni og þingflokki Samfylkingarinnar fyrir að leggja það fram.