145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

verðtrygging búvörusamnings.

[15:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina nokkrum spurningum til hæstv. fjármálaráðherra vegna nýgerðra búvörusamninga. Fyrst er náttúrlega að minna á að það er athyglisvert að sjá hversu hraustleg verðtryggingarstjórn þessi ríkisstjórn er, því að tryggilegri verðtryggingarákvæði hafa ekki sést í nokkrum samningi sem ríkið gerir en í þeim sem hér liggur fyrir. Það hefur verið tekin ákvörðun, með þessum samningi, um gríðarleg útgjöld, nærri 200 milljarða kr., eða sem samsvarar fyrsta Icesave-samningnum sem ráðherra þessarar ríkisstjórnar gagnrýndu nú margir hverjir — þeir gagnrýndu skort á samráði í aðdraganda hans og vönduðum vinnubrögðum við samningsgerðina. Hér er búið að gera samning án nokkurs samráðs við ráðherraskipaða nefnd og átti að fjalla um búvörumálin sem var ekki einu sinni kölluð saman, án samráðs við Alþýðusamband Íslands. Hæstv. ráðherra hefur látið í veðri vaka að þessi samningur réttlætist af hagræðingu sem gert sé ráð fyrir í samningnum. Vandinn er sá að útgjöldin eru örugg í þessum samningi en hagræðingin er fugl í skógi og kemur ekki til fyrr en í fyrsta lagi eftir endurskoðunarákvæði samningsins og eftir atkvæðagreiðslu meðal bænda.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann telji mögulegt að réttlæta þennan samning, aðdraganda hans og vinnubrögðin. Hvernig stendur á því að honum finnst eðlilegt að ganga frá samningi af þessum toga, um útgjöld sem eru svona umtalsverð, án þess að eiga um það samráð við þingið, án þess að kalla (Forseti hringir.) fulltrúa launþega og fulltrúa starfsmanna í greininni að borðinu; gera hann einvörðungu milli ríkisstjórnarflokkanna og trúnaðarmanna ríkisstjórnarflokkanna innan Bændasamtakanna?