145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

verðtrygging búvörusamnings.

[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég held að betur hefði farið á því að þessari spurningu, um efnisleg atriði samningsins, væri beint til rétts ráðherra en ég skal ekki kveinka mér undan því að standa hér og ræða um málið.

Fyrst varðandi samráð við þingið þá veit þingmaðurinn auðvitað að þessir samningar eru gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis og þeir verða lagðir hér fyrir og ræddir á Alþingi. Varðandi hagræðinguna, sem nefnd er, að það sé ekkert fast í hendi, finnst mér þetta orðin dálítið skondin umræða. Það eru ekki mörg ár síðan þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, stóð hér og þurfti að svara fyrir það að það væri svo mikil fækkun bænda í Flóanum sem leiddi af því að eignamenn úr Reykjavík væru að kaupa upp jarðirnar og kvótinn allur framseldur. Ég man eftir því að hafa setið hér í þingsal þegar hann sagði að íslenska kýrin keppti ekki við það að sofa út á sunnudögum.

Bændur seldu jarðir sínar, brugðu búi og kvótinn fór annað. Þannig hefur búum fækkað um mörg hundruð ár eftir ár á síðustu 20 árum. Allt bendir til þess að þeim muni halda áfram að fækka. Þegar við horfum á þá þróun annars vegar og veltum síðan fyrir okkur efnislegu inntaki samninganna við Evrópusambandið um tollamál, sem verða lagðir fyrir þingið, sjáum við að það sem er að gerast er framhald af þróun sem mun nýtast neytendum og mun líka nýtast bændum sem verða stærri, öflugri einingar sem geta framleitt matvæli með hagkvæmari hætti, holl, heilbrigð matvæli, en á sama tíma erum við að opna Ísland fyrir innflutningi á tilteknum hluta matvæla. Síðan er hellingur allur af matvælum sem kemur hér inn tollfrjálst.

Þetta heildarsamhengi verða menn að hafa í huga þegar rætt er um landbúnaðarmál (Forseti hringir.) og það er auðvitað til skammar fyrir menn að vera að bera þetta saman við Icesave-samninginn. Ég nenni ekki að taka umræðu sem er svona glórulaust vitlaus eins og að bera þennan samning saman við fyrsta Icesave-samninginn.