145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

verðtrygging búvörusamnings.

[15:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ráðherrann verður að horfast í augu við það að kostnaðurinn af þessum samningi er jafn mikill og hefði orðið af fyrsta Icesave-samningnum. Það getur vel verið að það sé óþægilegt fyrir hann, en það er staðreyndin.

Einokun Mjólkursamsölunnar er fest í sessi. Er það afsakanlegt og rökrétt út frá stefnu Sjálfstæðisflokksins? Innflutningsvernd er aukin. Það er rangt sem hæstv. ráðherra heldur hér fram. Það er verið að skrúfa klukkuna aftur til ársins 1995 í magntollunum. Vissulega var lagt upp með tiltekið umbótaverkefni af hálfu ráðherrans og sumra innan bændastéttarinnar, en við fyrsta andblæ hagsmunaafla, við fyrsta mótdræga kallið frá Kaupfélagi Skagfirðinga, hrukku menn til baka.

Samningurinn nú felur í sér kyrrstöðu, óbreytt ástand. Landsbankinn lýsir þessu sem frystingu. Alþýðusambandið segir: Stórkostleg glötuð tækifæri. (Forseti hringir.) Er hæstv. fjármálaráðherra einn um að sjá snilldina í þessum nýja Icesave-samningi?