145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

verðtrygging búvörusamnings.

[15:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það skemmtilega við Icesave-samlíkinguna er það að hv. þingmaður studdi þann samning sem hann segir að hafi verið svo glórulaust vitlaus, en sá sem hér stendur greiddi atkvæði gegn þeim samningi. Reyndar lagði ég síðan til að málið færi til þjóðarinnar, en hv. þingmaður greiddi atkvæði gegn því. Hann greiddi atkvæði gegn því. (ÁPÁ: Og hvor okkar er búinn að læra af fortíðinni?) — Það er auðvitað alveg kostulegt að menn skuli bera samning eins og þann sem hér er verið að ræða — sem kemur í beinu framhaldi af öðrum sambærilegum samningi sem var gerður í þeirri tíð sem hv. þingmaður sat í ríkisstjórn, samningi sem var efnislega í öllum aðalatriðum alveg sambærilegur þessum, sambærilegur samningunum sem giltu þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn — við það að setja mörg hundruð milljarða gjaldeyri til útlanda fyrir ekkert, fyrir ekki neitt, án þess að komi neitt gagngjald, bara til þess að kaupa sér frelsi, á sama tíma og menn sögðu að við þyrftum að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna til að losna við höftin. Það er alveg með ólíkindum að menn (Forseti hringir.) þori í þá umræðu. Við skulum endilega taka sérstaka umræðu um Icesave-samningana og landbúnaðarmálin, ég óska eftir því að fá að taka þátt í þeirri umræðu.