145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

Hús íslenskra fræða.

[15:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég átti ágætan orðastað við hæstv. forsætisráðherra í september síðastliðnum um það sem nú er kallað „hola íslenskra fræða“. Ég spurði þá hæstv. ráðherra sérstaklega út í það mál því að hann tók það upp á sína arma, ef svo má segja, þegar tillaga hæstv. ráðherra um hátíðahöld vegna 100 ára afmælis fullveldisins lak út í fjölmiðla þann 1. apríl í fyrra þar sem greint var frá því að nýtt Hús íslenskra fræða yrði hluti af aðgerðum sem ráðist yrði í til að halda upp á 100 ára afmæli fullveldisins.

Okkur var kynnt tillagan um Hús íslenskra fræða. Síðan bárust okkur fregnir af því að hún hefði aldrei verið afgreidd út úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Aðrir þættir voru raunar líka í tillögunni, eins og til dæmis tillaga um nýja viðbyggingu við Alþingi og tillaga um framkvæmdir á Þingvöllum.

Ég spurði hæstv. ráðherra í september síðastliðnum hverju sætti að tillagan hefði horfið inn í svarthol þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hæstv. ráðherra hafði hér uppi góð orð um að nú mundum við sameinast um að vinna málinu brautargengi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hefur gerst í málinu síðan í september? Það sem við höfum séð eru fjárveitingar til viðbyggingar Alþingis, en ekkert bólar á Húsi íslenskra fræða í fjárlögum. Ég þarf svo sem ekkert að minna hv. þingmenn á að það var hugsað sem framkvæmd fyrir rannsóknir og kennslu á íslenskum fræðum en líka fyrir sýningu á handritum okkar, eins merkasta menningararfs íslensku þjóðarinnar sem er á heimsminjaskrá UNESCO. En við erum enn bara með holuna.

Ég vona að það sé ekki bara af því að það vill svo til að holan er á Melunum að ekkert hefur gerst í málinu því að handritin eigum við öll. Öll þjóðin á þau. Það er til skammar að við vitum ekkert hvert stefnir í málinu.

Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, sem tók vel í ósk mína um að við mundum finna einhverja lausn á málinu í september: Hvað (Forseti hringir.) líður vinnu við málið? Munum við fá að sjá einhverjar tillögur á þessu þingi sem munu vekja okkur von um að menningararfinum og rannsóknum á íslenskri tungu, bókmenntum og fræðum verði sinnt í nýju húsi?