145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

hagnaður bankanna og vaxtamunur.

[15:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég var ekki að spyrja hæstv. forsætisráðherra um sagnfræði. Ég spurði hvort ríkisstjórnin hefði gripið til aðgerða eða ætlaði að grípa til aðgerða til að verja fólk og fyrirtæki í landinu fyrir óhóflegum vaxtamun og gjaldtöku. Svar forsætisráðherra er skýrt: Ekkert. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert í því skyni, ef marka má svar hans, og hyggst ekkert gera. En hæstv. forsætisráðherra hefur annað tækifæri til að leiðrétta mig og ég vona að ég fari með rangt mál, ég vona að ríkisstjórnin ætli að grípa til aðgerða til að verja fólk og fyrirtæki í landinu fyrir þessari óhóflegu gjaldtöku því að það er gríðarlega brýnt að taka á því.

Ég spyr forsætisráðherra líka hvort það sé ekki alveg á hreinu, þar sem hagnaðurinn af þessum fjármálafyrirtækjum er jafn gríðarlegur og hann er, að þau verði ekki seld einkaaðilum á yfirstandandi ári. (Forseti hringir.) Ég spyr hvort sú staðreynd að helmingur þingflokks Framsóknarflokksins hefur lýst sig andvígan sölu á eignarhlutum í Landsbankanum sé ekki trygging fyrir því að sá eignarhlutur verði ekki seldur á þessu ári.