145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

uppbygging ferðamannastaða og samgöngukerfis.

[15:29]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það vill nú svo til að ég er hér með blað, yfirlit sem er nýbúið að taka saman, yfir aðgerðir ríkisstjórnarinnar, einkum iðnaðar- og viðskiptaráðherra í ferðamálum á undanförnum árum. Það eru heilar tvær blaðsíður af alls konar aðgerðum til að mæta og bregðast við þessari gríðarlega hröðu fjölgun ferðamanna. Hvað á ríkisstjórnin að gera varðandi Reynisfjöru sérstaklega? spyr hv. þingmaður. Jú, það má velta því fyrir sér hvort það sé einfaldlega of hættulegt að ferðamönnum sé hleypt þarna alveg að sjónum við þær aðstæður sem þar eru, en það er ekki hlutverk ríkisstjórnar að taka ákvörðun um slíka hluti. Til þess höfum við þar til gerðar stofnanir sem ég treysti vel til að vinna þá vinnu áfram. Stjórnvöld móta hins vegar stefnuna og leggja á öllum sviðum, allt frá vinnu við samgönguáætlun að því að gera fjármagn aðgengilegt til að fara í nauðsynlega uppbyggingu innviða á stærstu ferðamannastöðunum, mikla áherslu á þennan málaflokk.

Það má nefna sem dæmi að það tókst ekki einu sinni að klára allt það fé sem þó var til reiðu í þá uppbyggingu á stærstu ferðamannastöðunum í fyrra. Vonandi ná menn að nýta það fjármagn enn betur núna til þess að fara í enn meiri og hraðari uppbyggingu. En þegar vöxturinn er þetta gríðarlega mikill eru menn, þeir sem eru í ferðaþjónustunni, í þessum stofnunum sem halda utan um þessa hluti, að sjálfsögðu að reyna eins vel og þeir mögulega geta að gera hlutina hratt. En vöxturinn er einfaldlega það mikill að við sjáum fram á það að á næstu árum að minnsta kosti muni þurfa að halda þessari uppbyggingu áfram.