145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

uppbygging ferðamannastaða og samgöngukerfis.

[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ekki veit ég til hvaða gömlu áætlana í ferðamálum hv. þingmaður vísaði í lokin, en því miður var það svolítið lýsandi fyrir fyrirspurn hans sem er að langmestu leyti gripin úr lausu lofti. Til dæmis er fullyrt að ekkert hafi verið gert í umgjörð lagasetningar vegna heimagistingar. Það er bara rangt. Hv. þingmaður á að vita það. Hv. þingmaður fullyrðir líka að það skorti fjármagn, að ekki sé til fjármagn í innviðauppbyggingu, þegar ég benti honum á það áðan að ekki hefði einu sinni tekist að nýta allt það fjármagn sem var til staðar sem stjórnvöld voru reiðubúin til þess að setja í þennan mikilvæga málaflokk, málaflokk sem við höfum verið að vinna að á ýmsum sviðum og gerum áfram. En hv. þingmaður og aðrir ættu að láta vera að grípa mál úr lausu lofti úr fréttum og ætla að kenna ríkisstjórninni um allt sem aflaga fer, ef það verða slys í landinu sé það ríkisstjórninni að kenna.

Virðulegur forseti. Við höfum í þessu landi þróað öflugar góðar stofnanir til þess að bregðast við og fást við þessa hluti. (Forseti hringir.) Þær munu fá fjármagn til þess og ég treysti þeim vel til þess að leysa það verk af hendi.