145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

skýrsla um öryggi á ferðamannastöðum.

[15:35]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina og sérstaklega fyrir þann þátt, sem ég veit að hún er alveg einlæg með, að bjóðast til að koma með okkur í þetta verkefni. Ég hef ekki reynt þingmanninn að öðru og kann vel að meta það.

Umrædd skýrsla er eitt þeirra gagna sem við erum núna að vinna með innan Stjórnstöðvar ferðamála, sérstaklega í þeim tillögum er varða öryggismál. Innanríkisráðherra skipaði starfshóp fyrr í vetur sem skilaði af sér í desember og það er verið að vinna áfram með þær tillögur innan Stjórnstöðvarinnar.

Það er nefnilega rétt, sem fram kom í fyrirspurn hv. þingmanns, að allt of margar góðar tillögur, góðar skýrslur, gott efni í gegnum árin og áratugina, hafa lent ofan í skúffu. Þetta er þannig atvinnugrein og þannig viðfangsefni að þau snerta svo marga. Þarna eru viðfangsefni sem eru á vegum margra ráðuneyta, margra stofnana og skort hefur á skýrt verklag í þessum efnum. Úr því erum við að bæta. Með þeirri samræmingarvinnu sem við erum að inna af hendi innan Stjórnstöðvarinnar, er akkúrat verið að taka þessi mál, sem heyra undir fleiri en einn og fleiri en tvo og fleiri en þrjá, og koma þeim þannig fyrir að þetta verði ekki endalaust á verkefnalistanum heldur fari í framkvæmd.

Öryggismálin eru því ofarlega á baugi. Þeim má eiginlega skipta í nokkra flokka. Það er það sem við verðum að bregðast við strax og það eru ekkert endilega þeir hlutir sem kosta mestu peningana. Það er margt sem við getum lagað með tiltölulega litlum tilkostnaði og sett strax í gang. Síðan eru það aðrir þættir sem munu koma til kasta þingsins hvað varðar auknar fjárveitingar til löggæslu og samgöngumála (Forseti hringir.) sem eru á forræði og ábyrgð innanríkisráðherra. En að sjálfsögðu hefur Alþingi síðasta orðið með það hvað fjárveitingar varðar.