145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

skýrsla um öryggi á ferðamannastöðum.

[15:38]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hvet ráðherrann til dáða. Eins og oft hefur komið fram, í umræðum okkar í milli um þessi mál hér í þingsal, þá höfum við verið sofandi allt of lengi. Þessi vöxtur hefur verið mjög ör síðustu 20 árin. Nú lendir ráðherra bara í því að gríðarleg vandamál eru í gangi og það þarf að bregðast við hratt og vel. Bara eins og hálkuvarnir og annað — það er alveg óþolandi að sjá fréttir af ferðamönnum sem hanga á köðlum af því að þeir komast varla að Seljalandsfossi. Þetta getur ekki verið svona flókið.

Ég vil brýna ráðherrann til dáða. Mér finnst alveg synd að menn skuli ekki hafa tekið þessa skýrslu árið 2011 og gengið í verkið. Þá værum við í betri málum í dag. Mér finnst það algjör synd.

Það sem við getum kannski gert er að læra. Ef við erum á annað borð að láta fólk setjast niður, vinna aðgerðaáætlanir og móta sýn fram í tímann, ættum við að minnsta kosti að gera eitthvað við afurðina.