145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

brottflutningur íslenskra ríkisborgara.

348. mál
[16:05]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Brottflutningur íslenskra ríkisborgara frá landinu umfram aðflutta ríkisborgara til landsins hefur aukist það sem af er þessu ári í samanburði við síðustu tvö ár þó að hann sé mun minni en í tíð síðustu ríkisstjórnar. Á fyrstu níu mánuðum ársins fluttust 1.130 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en til landsins en það svarar til 0,3% af mannfjölda.

Eins og bent hefur verið á, virðulegur forseti, þá telst þetta innan marka eðlilegra sveiflna. Það má heldur ekki gleyma því að á sama tíma eru á heildina litið fleiri að flytja til landsins en frá því, ólíkt því sem áður var.

Engu að síður er fróðlegt að velta fyrir sér af hverju þessi tímabundna sveifla, að því er virðist, kemur fram á þessu ári. Það verða þó aðeins vangaveltur og kannski ótímabærar því að lýðfræðileg greining, til að mynda á aldri og menntunarstigi þeirra sem hafa flutt brott, liggur ekki fyrir nema að mjög litlu leyti. Slíkar upplýsingar hljóta hins vegar að vera mjög gagnlegar fyrir umræðuna.

Það er svo rétt að taka fram og ítreka að það er fráleitt að tala um einhvers konar landflótta. Þó að brottflutningur umfram aðflutta sé 0,3% þá er það ekki frávik og alls ekki frávik frá alþjóðlegum samanburði og getur átt sér margháttaðar skýringar.

Einnig verður að halda því til haga að um 2.000 íslenskir ríkisborgarar fluttu heim á fyrstu níu mánuðum ársins þrátt fyrir þá mynd sem hv. fyrirspyrjandi dregur hér upp. Þessu til viðbótar flytja mun fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en nemur fækkun íslenskra ríkisborgara.

En hvaða skýringar eru þá mögulegar á þessari þróun? Ein möguleg skýring, og að því er virðist líkleg, er fjölgun námsmanna sem nú hafa tækifæri til að sækja nám erlendis. Það eru margir sem hafa dregið að fara til útlanda, fólk sem hefur langað til að sækja nám í útlöndum en ekki haft aðstæður til en virðist nú loksins sjá tækifæri til þess, meðal annars vegna þess að gengi krónunnar hefur styrkst til mikilla muna sem gerir búsetu erlendis ódýrari fyrir þá sem hafa haft tekjur hér á landi eða fengið námslán. Þannig er gengi norsku krónunnar nú 15 kr. samanborið við 23,5 kr. íslenskar fyrir fimm árum. Það munar um minna og gjörbreytir auðvitað möguleikum fólks á því að sækja nám erlendis.

Það er líka orðið auðveldara að flytja til útlanda þegar staða heimilanna hefur batnað til mikilla muna og heimilin búa ekki í sömu fjárhagslegu fjötrum og áður. Það eru ekkert mörg ár frá því að talað var um að ungt fólk á Íslandi væri fast í gildru; að heimili þess hefðu nánast breyst í fangelsi vegna þess að skuldastaðan gerði það að verkum að það gæti ekki flutt. En nú hefur þetta mjög lagast og þar af leiðandi hefur frelsi fólks aukist og möguleikar þess á að velja sér búsetu eða fylgja eftir draumum um starf eða menntun erlendis. Þetta á bæði við um eigna- og skuldastöðu heimilanna. Í báðum tilvikum hefur þetta færst mjög hratt í rétta átt.

Ýmsar félagslegar aðstæður geta svo gert það að verkum að ungt fólk dragi að koma heim eða kjósi að setjast að erlendis um lengri eða skemmri tíma. Möguleikar fólks á því að eiga í reglubundnum samskiptum við ættingja sína og vini hér á Íslandi hafa auðvitað stóraukist nú þegar stór hluti af samskiptum fólks fer fram í gegnum nýja upplýsingatækni. Þetta gerir fjarlægðirnar í raun minni en áður og það er kannski ekki eins stórt skref og áður var, sérstaklega fyrir ungt fólk, að upplifa draum um að búa um tíma erlendis.

Það má líka velta því fyrir sér hvort sú samfélagslega bylting sem fylgir auknum ferðamannastraumi geti leitt til ruðningsáhrifa. Og hvað á ég við með því? Jú. Það er til dæmis mikilvægt við þessar aðstæður, þar sem ein atvinnugrein vex þetta hratt, að menn leggi áherslu á að efla aðrar atvinnugreinar líka eins og nýsköpun og vísindi og tækni. Það er ekki hvað síst þess vegna sem ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á uppbyggingu á því sviði og stóraukið framlög til vísinda- og rannsóknastarfs.

Aukinn ferðamannastraumur getur líka átt þátt í hækkun (Forseti hringir.) og hefur örugglega — virðulegur forseti, ég er bara ekki búinn, ég klára á eftir.