145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

brottflutningur íslenskra ríkisborgara.

348. mál
[16:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þessar vísbendingar eru auðvitað visst áhyggjuefni en það eru tvær skýringar sem ekki voru enn komnar fram, að minnsta kosti ekki hjá hæstv. forsætisráðherra, sem ég vil nefna.

Önnur er sú að greiningar Alþýðusambandsins sýna að í launasamanburði Íslands við nágrannalöndin þá eru laun hér í hærri enda tekjuskalans hjá sérfræðingum og stjórnendum og öðrum slíkum, en í lægri endanum, hjá fólki undir meðallaunum, þá eru kjör hér umtalsvert lakari en gerist í nágrannalöndunum. Það er oft og tíðum ungt fólk sem er á þeim launum og þess vegna eðlilegt að skoða hvort það sé ekki hluti af orsökinni hér.

Svo er það auðvitað vaxtastigið í landinu. Vextir hér eru margfalt það sem gerist í nágrannalöndunum og þegar ungt fólk er að skoða það að koma sér upp þaki yfir höfuðið þá fer það bara á netið og sér hvað það kostar að kaupa íbúð og borga af henni vextina hér annars vegar og í löndunum í kringum okkur hins vegar.

Hið gríðarlega háa vaxtastig (Forseti hringir.) veldur hrópandi lífskjaramun á Íslandi og öðrum löndum og ég vona að það hafi verið óupptalið í ræðu forsætisráðherra.