145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

brottflutningur íslenskra ríkisborgara.

348. mál
[16:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Fyrri hluti svars hans var tiltölulega staðlaður, þ.e. að vissulega væri brottflutningur að aukast aftur marktækt en þar sem um væri að ræða miklu lægri tölur en fyrst eftir hrun og á síðasta kjörtímabili þá væri hæstv. forsætisráðherra væntanlega þar með í góðum málum.

Það er vissulega rétt að árinu 2009 töpuðum við talsvert mörgu fólki úr landi, bæði með íslenskt ríkisfang og fólki af erlendum uppruna. Síðan tók það að leita jafnvægis á nýjan leik og þessar tölur, bæði í fyrra og sérstaklega í ár, árið 2015, eru sennilega verri en bæði árin 2012 og 2013. Árið 2013 var komið nokkurn veginn í jöfnuð.

Það nýja hér er það að við skulum búa við svona neikvæðan jöfnuð þrátt fyrir ágætisþróun í þjóðarbúskap okkar að langmestu leyti. Ég tel að við hljótum að vilja greina það og ræða um það málefnalega. Því að það er ekki til langframa þannig sem við viljum hafa það að við töpum stanslaust mannauði út úr landinu.

Að sjálfsögðu er það fínt að ungt fólk geti leitað sér náms og verið búsett erlendis tímabundið. En við viljum gjarnan fá það til baka og við viljum helst búa við sæmilegan jöfnuð í þessum efnum. Það hlýtur að vera það sem við ætlum að keppa að.

Vandamálið er auðvitað vel þekkt og jaðarsvæði eins og vestnorrænu löndin eiga öll við það að stríða í einhverjum mæli að okkur helst misvel á fólki og það flytur kannski til stærri svæða. En það þýðir ekki að við ætlum bara að leita einhverra þægindaskýringa og gera svo ekki neitt.

Ég tel að við verðum að taka þetta mál alvarlega í samhengi við það hvernig við búum að ungu fólki, fjölskyldufólki. Er þá staðan sú að okkar unga fólki finnist ekki nógu spennandi framtíðarhorfur hér? Hvers vegna er það? Er það vegna þess að húsnæðismálin eru í ólestri, allt of háir þröskuldar fyrir menn að komast þar inn? Er það vegna þess að fæðingarorlofið er of stutt? Að barnabæturnar eru of lágar? Að okkur hafi bara ekki tekist að skapa nógu fjölskylduvænt og (Forseti hringir.) spennandi samfélag, vinnuvikan of löng o.s.frv., fyrir ungt fólk? Þá er það eitthvað sem við hljótum að taka alvarlega.