145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

markmið verkefnisins Ísland 2020 -- sókn fyrir atvinnulíf og samfélag.

350. mál
[16:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mun kalla þennan dag „samverustund með Sigmundi“ þegar ég skrifa í dagbókina í kvöld því þetta er líklega fjórða fyrirspurnin sem ég er með til hæstv. forsætisráðherra í dag. Hún er raunar frá því í nóvember og snýst um markmið verkefnisins Ísland 2020 — sókn fyrir atvinnulíf og samfélag.

Forsaga þessa máls er sú að á síðasta kjörtímabili var farið í mikla stefnumótunarvinnu sem bar yfirskriftina Ísland 2020 — sókn fyrir atvinnulíf og samfélag. Ég kom að því máli, sat í stýrihópi verkefnisins um tíma og átti því láni að fagna að sitja þjóðfundi um land allt þar sem farið var yfir sóknarfæri hvers og eins landshluta. Þar komu að sveitarstjórnarmenn, hagsmunaaðilar af svæðunum og almenningur af viðkomandi svæðum og settu niður landshlutabundin markmið. Úr þessu var unnið í miklu ferli og sett niður miðlæg markmið meðal annars hvað varðaði hlutfall atvinnulausra, að auka jöfnuð og bæta stöðu jafnréttismála þannig að gildi jafnréttisvísitölu yrði tiltekið og að sett yrðu sérstök menntamarkmið, þ.e. hlutfall Íslendinga sem hefðu ekki formlega framhaldsmenntun færi úr 30% niður í 10%, svo dæmi sé tekið. Einnig voru sett þau markmið að Ísland yrði meðal tíu efstu þjóða árið 2020 í rafrænni stjórnsýsluvísitölu og rafrænni þátttökuvísitölu Sameinuðu þjóðanna og að eldsneyti í samgöngum og sjávarútvegi yrði að minnsta kosti 10% af endurnýjanlegum uppruna árið 2020. Og ég tek hér af handahófi markmið um að árið 2020 mundu 75% nýskráðra bifreiða undir 5 tonnum að þyngd ganga fyrir eldsneyti af endurnýjanlegum uppruna og að hlutfall innlendrar matvöru í matvöruneyslu landsmanna mundi aukast um 10% fyrir árið 2020. Ég veit að hæstv. forsætisráðherra gleðst mjög yfir því markmiði.

Þessi markmið voru sett fram sem og mælikvarðar á heimasíðu forsætisráðuneytisins. Það vakti athygli mína þegar ég lagði þessa spurningu fram að þeir mælikvarðar höfðu ekki verið uppfærðir á þessu kjörtímabili. Þegar ég fletti málinu upp aftur núna sé ég raunar að verkefnið Ísland 2020 er komið undir liðinn „Verkefni sem er lokið“ á heimasíðu forsætisráðuneytisins. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Lítur hann svo á að verkefninu sé lokið, þ.e. sóknaráætlunin Ísland 2020, úr því að búið er að skella því undir þann hatt? Er ekki verið að vinna áfram að þeim markmiðum sem sett voru með þessum hætti og þessir mælikvarðar lýsa? Ég spyr hvort hæstv. ráðherra hafi fallið frá þessum markmiðum. Þau voru mótuð í mjög þverfaglegu og þverpólitísku samráðsferli um land allt og flest af því sem ég taldi upp, eins og ég get ímyndað mér að hæstv. ráðherra sé sammála mér um, er nokkuð sem við ættum að vera sammála um hér á Alþingi. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja: Var fallið frá verkefninu? Er 2020 bara komið í forsætisráðuneytinu?