145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

markmið verkefnisins Ísland 2020 -- sókn fyrir atvinnulíf og samfélag.

350. mál
[16:25]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna því að nú, þegar bráðum eru komin þrjú ár frá því að ég varð þingmaður, er ekkert eitt mál meira rætt í kjördæmum en sóknaráætlun 2020 og sú skelfilega ákvörðun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að slá hana af. Það sem við fengum yfir okkur, þingmenn, í fyrstu kjördæmavikunni eftir að sú ákvörðun var tekin, er ekki hafandi eftir í ræðustól Alþingis. Svo mikil var reiðin sem kraumaði úti í kjördæminu og meðal annars hjá kjósendum hæstv. forsætisráðherra.

Ég get ekki skilið svona vinnubrögð. Þegar maður fer að skoða aðferðafræðina sem var notuð við áætlunina kemur í ljós að hún er eins fullkomin og hægt er. Þegar hæstv. ráðherra segir að áætlunin hafi verið dáin á síðasta kjörtímabili segi ég að það sé helber þvæla. Þau viðbrögð sem maður fær úti í samfélaginu við þeirri ákvörðun að slá áætlunina af segja meira en mörg orð. Þegar hæstv. forsætisráðherra fer svo að blanda Evrópusambandinu inn í málið vil ég skora á hann að standa við loforð sem gefin voru fyrir síðustu kosningar, þ.e. að fara með framhald á aðildarviðræðum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru ein mestu svik sem Ísland hefur þurft að upplifa.