145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

markmið verkefnisins Ísland 2020 -- sókn fyrir atvinnulíf og samfélag.

350. mál
[16:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls. Hæstv. ráðherra taldi að horfið hefði verið frá verkefninu í tíð síðustu ríkisstjórnar en það er ekki svo. Flestir þeirra mælikvarða sem hér eru hafa verið uppfærðir til 2012 og væntanlega sýnir það að þeir hafi verið uppfærðir þar til árið 2013 kom og ný ríkisstjórn tók við, þó að það eigi auðvitað ekki við því að stundum þarf lengri tíma til að meta sumt.

Hæstv. ráðherra sagði að hann efaðist um þá hugmyndafræði að hafa miðstýrða stefnumótun um samfélagsþróun og atvinnumál. Hugmyndafræðin á bak við sóknaráætlunina var einmitt sú að kalla sem flesta til, reyna að hafa ferlið sem lýðræðislegast þegar við erum að ræða hvernig við viljum móta samfélag okkar til nánustu framtíðar. Hugmyndafræði núverandi ríkisstjórnar hefur verið að raða saman fáum þing- og sveitarstjórnarmönnum í sérstakar svæðisbundnar nefndir til þess að taka slíkar stefnumótandi ákvarðanir. Ég spyr: Hvort er miðstýrðara að hafa slíkar nefndir, t.d. norðvesturnefnd, vafalaust margar ágætar tillögur sem þaðan koma en ferlið er ekki lýðræðislegt með sama hætti? Þetta er miðstýring þar sem fólk er handvalið til að gera tillögur um stefnumótun í staðinn fyrir að ferlið sé opnað, fólk kallað að og reynt að beita nýjum aðferðum. Það er sannarlega það sem við þurfum á að halda ef við ætlum að gera það sem við þurfum að gera. Mér hefur orðið tíðrætt um að við getum til dæmis ekki talað um atvinnumál á Íslandi nema við ræðum í leiðinni um loftslagsmál og hvernig við ætlum að uppfylla þær skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur vegna loftslagsbreytinga og undirgengumst í París í desember. Þá þurfum við auðvitað að hafa þetta samfléttað í alla umræðuna. Mig furðar að hæstv. ráðherra telji það ekki góð vinnubrögð (Forseti hringir.) að opna ferlið, kalla fólk að borðinu og ná þá vonandi fram, og það er leitt að það hafi ekki tekist, aukinni sátt um það hvert við stefnum í samfélags- og atvinnuþróun.