145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

markmið verkefnisins Ísland 2020 -- sókn fyrir atvinnulíf og samfélag.

350. mál
[16:33]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmennirnir sem komu upp, reiður, reiðari, reiðastur, þurfa ekki að láta það svona á sig fá þótt bent sé á að þessi áætlun, sniðin eftir Evrópusambandinu, að því er virðist til þess að laga Ísland og sveitarstjórnir og byggðamálin hér og atvinnumálin meira að því kerfi sem verið er að koma á í Evrópusambandinu, hafi illa gengið eftir hjá síðustu ríkisstjórn, sem ég taldi að menn vissu sjálfir.

Hvað varðar sóknaráætlanir landshluta nefndi ég það einmitt að þeim þætti hefði þó verið viðhaldið, reyndar í breyttri mynd.

Hvað varðar sértækar aðgerðir til að bregðast við stöðunni í ákveðnum landshlutum held ég að óhætt sé að fullyrða að þær leiðir hafi verið opnari og markvissari en þetta stóra Evrópukerfi sem átti að skipuleggja landið allt.