145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

innleiðing nýrra náttúruverndarlaga.

468. mál
[16:46]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegu forseti. Ég þakka fyrirspurnina og mun reyna eftir bestu getu að svara henni. Eins og þingheimur þekkir tóku ný náttúruverndarlög gildi 15. nóvember síðastliðinn og vinnur ráðuneytið og stofnanir þess nú að innleiðingu þeirra samkvæmt þeim ákvæðum sem þar voru sett fram. Ég vil taka fram að ekki skortir vilja til verksins, hvorki hjá ráðuneytinu né þeirri sem hér talar, þ.e. að vinna að innleiðingu þessara laga.

Meðal annars má nefna að vinna stendur yfir við skoðun á þeim reglugerðum sem lögin kveða á um. Þar er bæði um skyldureglugerðir og heimildareglugerðir að ræða og í sumum tilfellum eru til eldri reglugerðir sem þarfnast uppfærslu. Einnig kveða lögin á um skipun nefnda og vinnuhópa. Vinna er hafin við að undirbúa og kalla eftir tilnefningum í nefndirnar og þessa vinnuhópa. Ég verð þó að játa að ég hef aðeins staldrað við hvernig best sé að standa að starfi náttúruverndarsjóðs samkvæmt 93. gr. og við í ráðuneytinu höfum velt fyrir okkur hlutverki hans, hvert það eigi helst að vera.

Eins og fyrirspyrjandi gat um eru bráðabirgðaákvæði við lögin sem komin eru í vinnslu. Annað er um samræmingu á reglum um innfluttar tegundir og hitt er um ákvæði um stýringu á ferðaþjónustu með hliðsjón af reglum um almannarétt. Skoðun á þessum ákvæðum og vinna við hvernig best sé að nálgast þau er þegar hafin í ráðuneytinu. Þau ákvæði voru jú sett í lögin í góðri samvinnu ráðuneytisins og umhverfis- og samgöngunefndar.

Önnur spurning hv. þingmanns er um hver séu áhrif laganna á einstakar stofnanir ráðuneytisins, verksvið þeirra og viðfangsefni. Vissulega hafa lögin margvísleg áhrif á stofnanir ráðuneytisins, sérstaklega á verkefni Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, en einnig á viðfangsefni annarra stofnana og þá ekki hvað síst viðfangsefni Skipulagsstofnunar. Hér er ekki rými til að vera með tæmandi yfirferð yfir öll þau viðfangsefni enda eru lögin umfangsmikil, eins og fyrirspyrjandi þekkir vel. Lögin leggja ýmsar nýjar skyldur á herðar Umhverfisstofnunar enda fer hún meðal annars með eftirlit með framkvæmd laganna, veitir leyfi og umsagnir, annast umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða, ber ábyrgð á gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði, sinnir fræðslu og veitir ráðherra ráðgjöf um náttúruverndarmál. Þá annast Umhverfisstofnun undirbúning friðlýsinga, metur nauðsynlegar verndarráðstafanir á svæðum sem til greina kemur að setja á framkvæmdaáætlun og sér um kynningu á tillögu að endurskoðaðri náttúruminjaskrá og úrvinnslu umsagna vegna hennar. Þetta eru sannarlega umfangsmikil verkefni sem tengjast fyrst og fremst stjórnsýslu náttúruverndarmála og svo verkefnum tengdum rekstri, umsjón og framkvæmdum á náttúruverndarsvæðum.

Náttúrufræðistofnun Íslands fær jafnframt mörg ný og krefjandi verkefni. Stofnunin annast meðal annars skráningu náttúruminja og mat á verndargildi þeirra, hefur umsjón með sérhluta náttúruminjaskrár og gerir tillögur um skráningar í hann í samráði við fagráð náttúruminjaskrárinnar sem og tillögur um náttúruminjar sem ástæða þykir að setja á framkvæmdaáætlun. Jafnframt á stofnunin að skrá og birta upplýsingar um þau náttúrufyrirbæri sem njóta sérstakrar verndar. Stofnunin ber ábyrgð á vöktun í samræmi við ákvæði laganna og skipuleggur framkvæmd hennar, veitir umsagnir, sinnir fræðslu og veitir ráðherra ráðgjöf um náttúruverndarmál.

Hvað varðar Skipulagsstofnun þá kemur fram á vef stofnunarinnar að hún hefur unnið mjög flott starf við að taka út og birta á vefsíðu sinni hvernig standa á að málum varðandi lög um náttúruvernd. Þar eru ýmis nýmæli sem hafa bein og óbein áhrif á skipulagsgerð sveitarfélaga, umhverfismat og leyfisveitingar til framkvæmda.

Að lokum má nefna að Skipulagsstofnun hefur nýtt hlutverk hvað varðar samræmingu á upplýsingum frá sveitarfélögunum um skráningu á vegum í náttúru Íslands öðrum en þjóðvegum. Ég get upplýst að síðast í dag var haldinn fundur um þessi mál, þannig að á hverjum degi er verið að vinna að framgangi þessara laga.

Þriðja spurningin var: Hvað líður kynningu? Ég ætla að hlaupa þar hratt yfir. Það er sannarlega mikilvægt að kynna þær breytingar vel sem lögin hafa í för með sér. Fagstofnanir ráðuneytisins í samstarfi við ráðuneytið hyggjast ganga fyrir opinni kynningu á þeim breytingum sem lögin hafa í för með sér (Forseti hringir.) síðar í vetur eða núna á vordögum. Jafnframt er unnið við að koma á framfæri slíkum upplýsingum á netinu. Má nefna sem dæmi þessa greinargóðu framsetningu Skipulagsstofnunar.