145. löggjafarþing — 82. fundur,  1. mars 2016.

Jafnréttissjóður Íslands.

563. mál
[14:12]
Horfa

Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands, nr. 13/144. Fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu er hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir en hún er fjarverandi vegna starfa erlendis. Að þessari tillögu standa þingflokksformenn allra flokka, þ.e. sá sem hér stendur auk hv. þingmanna Helga Hjörvars, Svandísar Svavarsdóttur, Brynhildar Pétursdóttur og Birgittu Jónsdóttur.

Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að eftirfarandi breyting verði gerð á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands, nr. 13/144: 2. mgr. ályktunarinnar orðast svo: Alþingi kjósi fimm manna stjórn sjóðsins og jafnmarga til vara.“

Í greinargerð segir:

„Hinn 19. júní 2015 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands, nr. 13/144, í tilefni þess að 100 ár voru þá liðin frá því að konur fengu kosningarrétt með stjórnarskrárbreytingu sem gerð var 19. júní 1915. Með ályktuninni var stofnaður Jafnréttissjóður Íslands sem skal njóta framlaga af fjárlögum næstu fimm ár á eftir, þ.e. 2016–2020, og styrkja margvísleg verkefni sem hafa þann tilgang að auka jafnrétti kynjanna. Skv. 2. mgr. þingsályktunarinnar skal Alþingi kjósa í stjórn sjóðsins þrjá aðila og þrjá til vara. Með tillögu þessari er lagt til að stjórnarmönnum verði fjölgað úr þremur í fimm í samræmi við samkomulag formanna þingflokka sem sæti eiga á Alþingi.“