145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

staðan í orkuframleiðslu landsins.

[14:23]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna og tek undir mikilvægi þess að við ræðum á Alþingi um stöðuna í raforkuframleiðslu okkar. Ég vil líka geta þess að á næstu dögum, þ.e. seinna í þessari viku, mun ég leggja fram lögbundna skýrslu um raforkumál þar sem er að finna ýmsan og margvíslegan fróðleik um stöðuna í orkubúskapnum, sem við komumst kannski ekki yfir að ræða hér en getum þó notað það tækifæri.

Eins og málshefjandi sagði liggur fyrir að eftirspurn eftir raforku hefur aukist hér jafnt og þétt og það er ekki aðeins, eins og málshefjandi sagði, um að ræða orku til nýrra stóriðjuverkefna heldur hefur notkun almennings og annarra fyrirtækja en stóriðju vaxið nokkuð ört. Það má nefna hraðan vöxt gagnavera, líftæknifyrirtækja eins og Algalífs og ekki síst vaxandi umsvif ferðaþjónustu á landinu, svo að ekki sé minnst á hugmyndir um sæstreng til Bretlands sem mundu kalla á 700–1.200 megavött af raforkuframleiðslu. Allt kallar þetta á uppbyggingu, bæði í raforkuframleiðslunni og á flutningnum, og mikilvægt er að menn hugsi til lengri tíma en eins árs í senn í þeim efnum.

Í því sambandi höfum við tvær mjög mikilvægar áætlanir sem ætlað er að varða leiðina, annars vegar kerfisáætlun Landsnets varðandi uppbyggingu flutningskerfisins og hins vegar umrædda rammaáætlun þar sem afstaða er tekin til nýrra virkjunarhugmynda. Þegar horft er til þess hvernig mæta á vaxandi orkuþörf næstu ára og áratuga á rammaáætlun að vera sá vettvangur sem raðar kostum í nýtingu, vernd og bið í sem mestri sátt. Í rammaáætlun eigum við því að geta séð fram í tímann hvar hægt er að afla orku og í hve miklum mæli. Það var að minnsta kosti upphaflegt markmið rammaáætlunar. Því miður hefur okkur borið af leið varðandi þá sátt og þann farveg sem vonir voru bundnar við að rammaáætlun mundi færa okkur. Ég ætla ekki að fara nánar út í ástæður þess en vil leggja áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um rammaáætlunina, eins og hugmyndafræði hennar og reglur voru lagðar í upphafi.

Í dag bíðum við eftir að sjá tillögur verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar. Ég tel mikilvægt að sú vinna hafi eðlilegan framgang og að fylgt sé ákvæðum laganna um rammaáætlun. Á fundi atvinnuveganefndar í október komu fram þau sjónarmið frá ýmsum aðilum að túlkun verkefnisstjórnar á starfsreglum hennar sem settar voru í maí 2015 væri ekki í samræmi við lögin. Meðal annars hefur verið bent á að verkefnisstjórn, sem er ráðgefandi aðili, geti ekki lögum samkvæmt tekið sér það vald að hafna að taka til faglegrar umfjöllunar virkjunarkosti sem Orkustofnun hefur í samræmi við lögbundið hlutverk sitt metið sem tæka til umfjöllunar í verkefnisstjórn. Slíkt sé ígildi íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar sem sé utan við lögbundið hlutverk verkefnisstjórnar. Ég tel fulla ástæðu til þess að vel sé farið yfir þau atriði í endurskoðun á starfsreglum verkefnisstjórnar og að grundvallaratriðið sé að starfsreglurnar endurspegli lögin um rammaáætlun og það sem kemur fram í lögskýringargögnum með þeim.

Alþingi hefur kallað eftir þessari endurskoðun og það er brýnt að henni verði lokið sem fyrst svo ekki verði frekari tafir á vinnu við 3. áfanga rammaáætlunar. Þetta er lykilatriði í allri umræðu um framboð og eftirspurn raforku.

Virðulegi forseti. Í dag eru ekki jöfn tækifæri á landsvísu þegar kemur að aðgengi að raforku eða afhendingaröryggi. Flöskuhálsar eru víða í flutningskerfi raforku sem valda því að landsvæði keppa ekki á jafnræðisgrundvelli um sköpun nýrra atvinnutækifæra. Við sjáum þetta til dæmis á Vestfjörðum og á Norðurlandi eystra. Við getum nefnt fiskimjölsverksmiðjur, t.d. á Þórshöfn, sem geta ekki skipt úr olíu yfir í raforku þar sem kerfið annar því ekki. Við getum nefnt virkjanir eins og Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði sem hefur verið í nýtingarflokki rammaáætlunar í nokkur ár en hár tengikostnaður hefur valdið því að ekki hefur enn verið lagt út í frekari skoðun á þeim virkjunarkosti.

Nú horfir til betri vegar með þau mál og ganga hugmyndir út á það að nýr tengipunktur, afhendingarstaður raforku við Landsnet, verði settur upp á Nauteyri við Ísafjarðardjúp. Við það myndast fjárhagslegar forsendur fyrir að fara út í Hvalárvirkjun og tvær minni virkjanir á heiðinni, Skúfnavatnavirkjun og Austurgilsvirkjun. Hér yrði um að ræða gríðarlega jákvætt skref varðandi nýtingu orkukosta og byggðaþróun á Vestfjörðum. Í framhaldi af tengingu þessara virkjunarkosta gæti myndast grundvöllur fyrir hringtengingu raforku á Vestfjörðum sem mundi opna fyrir fjölda nýrra og fjölbreyttra atvinnutækifæra á svæðinu.

Virðulegur forseti. Þetta er langt og umfangsmikið mál og ég næ ekki að tæma það í þessari ræðu, en bendi aftur á skýrsluna (Forseti hringir.) um raforkumál sem ég mun leggja fyrir þingið síðar í þessari viku og vona að Alþingi hafi þá tækifæri til að ræða þessi mál aftur.