145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

staðan í orkuframleiðslu landsins.

[14:28]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Við höfum verið svo lánsöm hér á landi að við höfum getað, vegna fámennis, nýtt okkur græna orku og framleitt orku úr auðlindum okkar, vatnsafli og jarðvarma. En þetta eru auðvitað ekki ótakmarkaðar auðlindir. Við erum komin býsna langt með nýtingarmöguleika okkar, ekki síst í ljósi þess að nú erum við komin með atvinnugrein sem keppir um aðgang að þessum auðlindum nema með öðrum hætti, þ.e. ferðaþjónustuna sem gerir ríka kröfu um að stór landsvæði séu látin ósnortin.

Á sama tíma hefur Landsvirkjun verið að mínu mati mjög framsýn í leit að nýjum kostum eins og í vindorku, betri nýtingu á þeim virkjunum sem nú þegar eru starfandi og svo framvegis. Er það vel og ég fagna þeirri framsýni. Fyrirtækið hefur einnig verið að hámarka arðsemi sína og auka hana og bæta þannig að við eigendurnir fáum sem mest fyrir nýtinguna á auðlindunum. Það er auðvitað það sem við viljum öll.

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með hvernig þróunin hefur orðið á kjörtímabilinu hvað varðar rammaáætlun. Það er stöðugt verið að stefna því verklagi í hættu, en það er það verklag sem við erum að reyna að skapa sátt um til að geta horft til lengri tíma í þessum geira og til að reyna að tryggja að við höfum einhvers konar hlutlægt mat þegar við ákveðum hvar skuli virkja og hvar ekki, sérstaklega þar sem um er að ræða mjög takmarkaðar auðlindir. Ég er mjög ósátt við það hvernig því verklagi hefur verið stefnt í hættu.

Mér finnst að við eigum núna að reyna að draga línu í sandinn. Ég vil taka hæstv. ráðherra á orðinu, miðað við það sem hún sagði áðan, og ég vil skora á hana og umhverfisráðherra að leiða nú saman hóp fólks úr öllum þingflokkum og reyna að leiða þessi mál (Forseti hringir.) til lykta og þessar deilur um rammann og verkferlana. Ef við höfum ekki verkferlana í lagi þá verða þessi mál aldrei í lagi.