145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

staðan í orkuframleiðslu landsins.

[14:38]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það hlaut að koma að því að þessi umræða kæmist á dagskrá. En stóra spurningin er ef til vill: Vantar rafmagn á Íslandi? Svarið við því er að sjálfsögðu nei.

Það er akkúrat það sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir benti á í ræðu sinni sem er og ætti að vera hjartað í þessari umræðu, vandamálin sem tengjast því að aðilar í ákveðnum landsbyggðum hafa ekki almennilegt og reglulegt aðgengi að rafmagni. Því ættum við fyrst og fremst að einbeita okkur að því að treysta innviðina, endurnýja gömul kerfi, áður en við förum að tala um hverju þurfi að breyta í því hvernig rafmagni er útdeilt til fyrirtækja.

Fyrst eigum við að huga að því hvernig almenningur, bara út frá almennum öryggissjónarmiðum, fær jafnt aðgengi að orkunni. Ég gæti næstum því sagt að ræða mín gæti verið ræða hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur því í henni kom allt fram sem ég hefði viljað segja.

Það sem ég mundi kannski vilja bæta við er að staðreyndin er sú að þegar við fjöllum um rammann, sem er greinilegt að margir vilja rífa í sundur, hefur hv. þm. Jón Gunnarsson verið fremstur þar í flokki til niðurrifs og það er miður.