145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

staðan í orkuframleiðslu landsins.

[14:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson fór hér yfir sviðið og ég hafði fyrir fram kannski ályktað sem svo að hann mundi gera það af yfirvegun sem formaður atvinnuveganefndar. En það er greinilegt að honum er heitt í hamsi þegar rammaáætlun er annars vegar og áhugavert þegar menn eru að segja söguna, sína eigin sögu. Saga Jóns Gunnarssonar þegar rammaáætlun er annars vegar er einfaldlega sú að hann hefur haft horn í síðu hennar alla tíð, horn í síðu laganna og horn í síðu framkvæmdarinnar, og svo illyrmislega að á síðasta þingi kom hann prívat og persónulega fram með tillögu um að fjölga virkjunarkostum upp í átta, bara af því að honum fannst það.

Það var sem betur fer rekið til baka. Það var rekið til baka á rökum, með málefnalegum og rökstuddum hætti. Það er óverjandi og óþolandi að viðhafa yfirgangs- og tuddapólitík þegar orkuauðlindir landsins eru annars vegar. Sem betur fer var sú viðleitni hv. þingmanns brotin á bak aftur.

Hv. þingmaður talar um að mikilvægt sé að endurskoða starfsreglur verkefnisstjórnar. Það er ljóst af svörum hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurnum mínum varðandi þær breytingartillögur að frumkvæði Landsvirkjunar er þar algert, það er Landsvirkjun sem óskar eftir breytingum á starfsreglunum vegna hagsmuna fyrirtækisins. Það er að mínu mati óboðlegt að fyrirtæki í almannaeigu og í almannaþjónustu skuli beita sér með svo miklu afli gegn rammaáætlun og starfsreglum verkefnisstjórnar.

Það er jafn óverjandi að ráðherrar umhverfismála og iðnaðarmála skuli taka undir þá aðför. Ég vonast auðvitað til þess að hæstv. umhverfisráðherra standi með mér eins og hún hefur áður gefið til kynna í því að standa vörð um rammaáætlun og svör hæstv. ráðherra við fyrirspurnum mínum bera með sér að hún telji (Forseti hringir.) það álitamál hvort þær breytingartillögur sem eru á vef umhverfisráðuneytisins standist lög um rammaáætlun.