145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

staðan í orkuframleiðslu landsins.

[14:45]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta er ágæt umræða. Mér finnst hún oft einkennast af mikilli naumhyggju, eins og að valmöguleikarnir séu takmarkaðir og ekki hægt að gera neitt annað til að styrkja flutningskerfi raforku en að leggja línu yfir Sprengisand og að annaðhvort verði að tryggja fiskvinnslunni og stórnotendum raforku eða orku eða þá að þeir verða að keyra olíuvélar. Ég hef oft velt fyrir mér af hverju stórnotendurnir eins og fiskvinnslan, hringinn í kringum landið, reyna ekki eftir fremsta megni að verða sjálfbærir um raforku eins og til dæmis með því að reisa vindmyllur, sem hægt er að gera víða í byggð án þess að það hafi teljandi umhverfisleg eða sjónræn áhrif á svæðum sem hvort sem er eru í nýtingu. Þetta finnst mér eitt atriði. Svo er annað þegar kemur að rammaáætlun. Það getur vel verið að gera þurfi breytingar á því og skýra þann lagaramma, en það verður auðvitað ekki gert þannig að ósk um það komi frá Landsvirkjun, sem er hagsmunaaðili í málinu, sem er síðan afgreidd af umhverfisráðuneytinu. Það verður að gerast í þverpólitískri samræðu og samtali í þinginu ef mönnum er alvara að gera þetta.

Því miður hefur þessi málaflokkur einkennst af gríðarlegu togi og vantrausti. Ég rek það vantraust til þess að þær auðlindir og það sem um er að tefla í þeim efnum er takmarkað. Það er sífellt að saxast á þær óspilltu auðlindir sem við eigum, landslag, svæði og náttúrufyrirbæri. Ég velti fyrir mér Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Þetta er gríðarlega fallegt svæði sem hefur verið lengi í nýtingarflokki. Mér finnst alveg ástæða til þess að endurskoða það í ljósi þeirrar stöðu sem upp er kominn í ferðamálum. Ef það er á sama tíma eðlilegt að taka fyrirbæri eins og Norðlingaölduveitu og endurskíra hana og óska eftir því að sá virkjunarkostur (Forseti hringir.) verði endurmetinn og endurskoðaður af rammaáætlun, af hverju skyldu menn ekki taka allan nýtingarflokkinn eins og hann liggur fyrir núna og endurskoða hann? Það er sjálfsagt mál. Tölum endilega um þetta en það þarf þá (Forseti hringir.) að eyða því vantrausti sem verið hefur í gangi. Það verður ekki gert með einhliða vinnubrögðum (Forseti hringir.) af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.