145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

staðan í orkuframleiðslu landsins.

[14:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það eru miklar breytingar hérlendis í samsetningu á því sem kalla má stóriðju. Kannski er tími stóru álfyrirtækjanna að líða undir lok.

Það hafa ekki farið fram hjá neinum deilurnar sem hafa átt sér stað hjá álverinu í Straumsvík og framkoma alþjóðafyrirtækisins Rio Tinto við starfsmenn þar á bæ. Þessi fyrirtæki fengu samninga um verð á rafmagni sem komið hefur mjög illa við Íslendinga þegar heimsmarkaðsverð á áli er mjög lágt.

Kannski er kominn tími til þess að endurhugsa aðeins hvernig við nýtum orkuna. Nú hefur verið mikil aukning í fyrirspurnum um að reisa hér gagnaver og jafnvel verið talað um kálver. Ef við viljum vera sjálfbær þurfum við að nota orkuna á þann hátt að við þurfum ekki að eyða gjaldeyri í að flytja eitthvað sem við getum búið til og notað hér heima.

Þess vegna finnst mér nauðsynlegt og er sammála og vil þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að hefja máls á þessu. Ég vil jafnframt þakka hæstv. ráðherra fyrir að opna á víðtækari samræður og að samráð verði haft um hvert við ætlum að fara saman inn í framtíðina. Það er það sem skiptir höfuðmáli.

Við verðum að passa okkur á því að láta grundvallarmál eins og aðgengi allra á Íslandi, og þá á ég við aðgengi allra íbúa á Íslandi, að rafmagni ekki dragast inn í deilur um stóriðju. Mér finnst það ekki passa saman.