145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

staðan í orkuframleiðslu landsins.

[14:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ekki gátu sumir þingmenn eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir látið af því að fara með stóryrði um undirritaðan og þá sem hafa gert athugasemdir við ferlið og saka þá um að rífa niður rammaáætlun.

Ég lýsti því áðan ágætlega hversu mikil sátt var um tillöguna þegar við afgreiddum hana út úr nefndinni og ég skrifaði undir hana ásamt öllum öðrum. En það var kallað yfirgangs- og tuddapólitík í mér og atvinnuveganefnd og stofnunum ríkisins eins og Orkustofnun og Landsvirkjun, að hafa skoðun á málunum.

Talað var um að hér hefðu verið handvaldir einhverjir virkjunarkostir og að 80% ferðamanna mundu vilja skoða náttúruna. Það er alveg rétt. En það vill þannig til, virðulegur forseti, að fleiri ferðamenn fóru að skoða virkjanir í landinu, jarðvarmavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir, á síðasta ári, en fóru inn á hálendið. Auðvitað vekur það athygli hvernig við stöndum að málum í framleiðslu á okkar grænu orku.

Flestir þingmenn voru sammála um að við þyrftum að nútímavæða flutningskerfi raforku. En það er auðvitað til lítils að nútímavæða flutningskerfi raforku og efla það ef ekki er til raforka til að flytja eftir því. Þá er eins hægt að sitja heima.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði að það væri til næg orka í landinu. Ég var rétt áðan að greina frá því að Silicor-verksmiðjan uppi á Grundartanga, einhver umhverfisvænsta orkutengda iðja sem við höfum fengið til landsins, getur ekki fengið raforkusamning. Hún þarf raforku í þann samning til viðbótar sem miðast við eitt gagnaver eða um 40 megavött. Það er ekki til. Hv. þingmaður virðist ekki hafa áhyggjur af því að í kjördæmi hennar sé þetta tækifæri að hverfa. En það er í lagi hennar vegna og annarra þingmanna að virkja Hvalá í jaðri friðlands á Ströndum af því að það er heima hjá þeim. Það er heima hjá þeim. (Gripið fram í.) Þá er allt í lagi að fara þar í vatnsaflsvirkjanir með línulögn yfir hálendið á Vestfjörðum.

Það er svo mikill tvískinnungur, virðulegur forseti, í þessari umræðu allri að það er alveg með ólíkindum. (Forseti hringir.) Það er auðvitað ástæðan fyrir því að okkur miðar ekkert áfram. Okkur miðar ekkert áfram að gefa landsmönnum öllum, hvar sem þeir búa, (Forseti hringir.) jöfn tækifæri til þess að byggja upp öflugt atvinnulíf, byggt á traustum stoðum, í sinni heimabyggð.

(Forseti hringir.) Ég held að það sé orðið tímabært, virðulegur forseti, að skynsamt fólk hér á Alþingi komi að þessari umræðu með ábyrgum hætti.