145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

staðan í orkuframleiðslu landsins.

[14:52]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég endurtek þakkir mínar til málshefjanda og þeirra þingmanna sem hér hafa talað og get svo sem tekið undir með hv. málshefjanda að sumt hefði kannski getað farið betur, en það er þó líka ágætisfréttir að finna í þessari umræðu.

Hér var kallað eftir samtali og fram komu áskoranir um verklag sem við hljótum að taka alvarlega, en þá verður það líka að vera gagnkvæmt. Það er ekki nóg að segja að við verðum að virða rammaáætlun og fara eftir henni — bara þegar það hentar mér. Þessar verklagsreglur eru skýrasta dæmið um þær breytingar sem verið er að leggja til núna. Ég ætla ekki einu sinni að svara þeim aðdróttunum sem hér voru hafðar í frammi þar sem látið var að því liggja að verið væri að breyta verklagsreglunum að kröfu einhverra.

Verið er að fara yfir og endurskoða verklag með það að markmiði að það endurspegli lögin með sem bestum hætti. Ég held að við hljótum öll að geta verið sammála um það. Hér hefur verið rætt um línulagnir. Okkur hefur tekist að klára tvö mikilvæg mál á Alþingi sem snúa að bættum vinnubrögðum hvað það varðar. Ég vona að það eigi eftir að skila sér í því að við getum gert endurbætur þar.

En það er ekki nóg að hafa reglurnar, það verður líka að passa upp á að flækjustigið verði ekki óbærilegt. Það er til dæmis þannig núna að vegna þess verklags sem við höfum komið okkur upp annar stjórnsýslan að mörgu leyti ekki því sem hún þarf að sinna. Það eru kæruleiðir víðs vegar í kerfinu þannig að það þarf til að mynda að styrkja úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál (Forseti hringir.) til þess að ljúka þeim málum sem þar liggja fyrir. Við gerðum þetta á sínum tíma með úrskurðarnefnd raforkumála og kláruðum (Forseti hringir.) þann hala sem þar er. Við þurfum því öll að líta í eigin barm og hafa reglurnar skýrar þannig að við séum sammála um þær og flækja ekki kerfið með óþarfa.